133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

466. mál
[20:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar fjallar annars vegar um breyting á skipan embætta sóknarpresta þar sem þau eru færð til biskups í staðinn fyrir að áður staðfesti kirkjumálaráðuneytið það endanlega. Það ætla ég ekki að gera að umræðuefni.

6. gr. frumvarpsins fjallar um að kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, séu eign íslenska ríkisins, samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Í frumvarpinu er líka lögfestur samningur sem gerður var milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um prestssetur og afhendingu þeirra til þjóðkirkjunnar.

Það er alveg rétt að undanfarin ár hefur verið ágreiningur um hver ætti prestssetur, kirkjujarðir og býli sem áður hafði verið skipt út úr slíkum jörðum. Eftir að farið var að gera eignaskipti á milli ríkis og kirkju var talið nauðsynlegt að það yrði líka tekið með. Samningurinn sem hér um ræðir kveður á um að íslenska ríkið afhendi skilgreindar eignir til yfirráða til þjóðkirkjunnar, eins og segir í 3. gr. samningsins:

„Íslenska ríkið afhendir eignirnar til fullra yfirráða eins og þær eru nú ásamt þeim réttindum, skyldum og/eða kvöðum sem þeim fylgja með þeim takmörkunum sem nánar greinir í samkomulagi þessu. Þjóðkirkjan tekur við eignunum ásamt réttindum, skyldum og/eða kvöðum frá sama tíma.“

Síðan eru taldar upp kirkjujarðir og prestssetur sem fara til þjóðkirkjunnar á þessum forsendum. Hér eru taldar upp í II. kafla Skeggjastaðir, Hof, Valþjófsstaðir, Desjamýri og síðan er farið vítt og breitt um landið í upptalningu á þeim jörðum sem fara til þjóðkirkjunnar til fullrar eignar og ráðstöfunar.

Ég hef ítrekað spurt og ekki fengið svar: Hvaða jarðir féllu til ríkisins í skiptum á jörðunum sem ágreiningur var um? Það liggur ekki fyrir. Þetta dæmi er mjög óklárt. Ég hef líka spurt hvaða ákvæði gildi um verslun með þessar jarðir. Margar þessara jarða sem færast nú til þjóðkirkjunnar með fullum yfirráðum og ráðstöfunarrétti eru nokkur mestu menningarsetur landsins. Ég treysti í sjálfu sér þjóðkirkjunni ágætlega til að fara með þau en hingað til hefur orðið að sækja um heimild til Alþingis hverju sinni sem til hefur staðið að selja jarðir í opinberri eigu, eigu ríkisins. Það hefur verið ákvörðun Alþingis hvort selja ætti ákveðnar jarðir eða ekki.

Þessar jarðir falla undir þjóðkirkjuna og þar með hefur Alþingi ekki neina forsjá yfir þeim, hvað um þær verður. Ég hefði talið að setja ætti fyrirvara um að ekki væri hægt að selja umræddar jarðir sem almennar verslunarvörur. Hérna eru t.d. Reykholt, Holt í Eyjafjallahreppi, Bergþórshvoll, Breiðabólsstaður, Oddi á Rangárvöllum og ég get talið fleiri jarðir sem fara til þjóðkirkjunnar til fullrar ráðstöfunar samkvæmt frumvarpinu.

Mér fyndist að slá ætti varnagla við því hvernig versla mætti með þessi stærstu menningarsetur landsins en það virðist ekki vera í frumvarpinu. Við vitum að menn hafa sóst eftir jörðum til kaups og það gæti verið freistandi fyrir kirkjuna, alveg eins og við höfum upplifað hjá ríkinu, að vilja selja jörð til að fjármagna önnur verkefni sín. Ég ítreka að þarna eru ein mestu menningarsetur landsins með mikla sögu og arfleifð. Þess vegna finnst mér að slá hefði átt varnagla við því að þessar jarðir mættu ganga kaupum og sölum.

Ég hef spurt formann allsherjarnefndar hvaða lög eða reglur giltu um þær jarðir, hvort einhverjar kvaðir væru á þeim og hvort einhvers staðar væru lög eða reglur sem lytu að meðferð þeirra. Hann hefur engu getað svarað, formaður allsherjarnefndar, enda virðist málið hafa farið tiltölulega lítið unnið, og nánast ekkert í gegnum allsherjarnefnd, a.m.k. verður ekki hægt að fá nein svör við því hvernig þetta hefur verið.

Ég hef vitnað til þess að landbúnaðarráðuneytið sem hefur farið með ríkisjarðir til þessa átti enga aðkomu að þessum skiptum. Þar hefur þó verið unnið við plagg, unnið að tillögu til þingsályktunar sem hefur verið kallað þjóðjarðir þar sem reynt hefur verið að skilgreina jarðir og menningarsetur á landinu sem hafa verið í umsjón landbúnaðarráðuneytisins og ekki má selja.

Í áráttu undanfarinna ára þar sem allt hefur verið falt hefur okkur stundum ofboðið hvað landbúnaðarráðuneytið hefur selt margar jarðir sem á eru menningarsetur. Hér er tillaga um hvaða jarðir mætti ekki selja. Í þessari úttekt starfsmanna landbúnaðarráðuneytisins er jafnframt hvatt til þess að aðrar opinberar stofnanir, önnur ráðuneyti, vinni hliðstæðar tillögur, formlegar skrár um eignir sínar, jarðir og annað, og leggi fyrir Alþingi tillögu um hvað megi ekki selja.

Þegar allt virðist vera falt nú á tímum hlýtur maður að spyrja sig hvort ekki séu einhverjar þessara jarða, einhver þessara menningarsetra, sem við viljum ekki að sé verslunarvara. Viljum við að Reykholt geti orðið verslunarvara? Nei, við viljum það ekki. (Gripið fram í: Snorri …) Snorri var nú drepinn í Reykholti, því miður. Það voru yfirgangssamir sendiboðar erlends ríkis sem drápu hann þar. Ég er ekkert viss um að við vildum fá slíka fulltrúa erlendra aðila til að valsa um íslenskar stórjarðir, menningarsetur. Ekki aldeilis, hvort sem þeir hétu Gissur jarl eða eitthvað annað. (ÖS: Þú átt að færa betri rök fyrir þessu.)

Ég ítreka að ég tel eðlilegt að það séu gerð einhver skil á milli ríkis og kirkju. Þó vil ég taka fram að ég er mikill kirkjunnar maður, styð kirkjuna mjög afdráttarlaust og vil sem sterkust bönd á milli ríkis og kirkju.

Ég tel að trúfrelsi og starfsemi allra trúarsafnaða fari bara ágætlega með að hér sé starfandi sterk og umburðarlynd þjóðkirkja. Það kemur svo sem þessu máli ekkert við en það gerir það samt. Ef það verða eins og stefnt er að í þessu frumvarpi áfram skil á milli ríkis og kirkju skiptir ráðstöfunarréttur á þessum eignum okkur líka máli.

Ég vantreysti í sjálfu sér ekki þjóðkirkjunni til að fara með þessar eignir en ég hefði viljað sjá hliðstæða varnagla varðandi jarðir þjóðkirkjunnar eins og við höfum séð með jarðir ríkisins, að ekki mætti selja þær nema með samþykki Alþingis.

Ég ætla ekki að hafa um þetta lengra mál hér. Ég vil bara slá þessa varnagla. Ég hef ekki fengið svör við spurningum mínum hjá formanni allsherjarnefndar um hver umgjörð þessara mála er í rauninni. Það virðist ekki hafa verið kannað. Ekki hafa verið kallaðir á fund nefndarinnar fulltrúar Bændasamtakanna, þeir sem fara almennt með jarðir í landinu og hagsmuni þeirra, til þess að heyra sjónarmið þeirra. Það hefur ekki verið gert.

Ég tel þess vegna að þetta mál hefði mátt vinnast miklu betur í nefndinni og ég hefði reyndar talið eðlilegast að þessum hluta frumvarpsins hefði verið frestað, hvað varðar skipti með jarðir, hefði verið farið ofan í þau. Þetta eiga að vera sömu hagsmunir og sömu sjónarmið sem gilda. Hvort sem það eru jarðir í eigu ríkisins eða þjóðkirkjunnar eiga þær að lúta sömu lögum hvað varðar meðferð og kröfur til landeigenda.