133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali.

80. mál
[22:59]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum í allsherjarnefnd fyrir afgreiðslu þessa máls. Það er tiltölulega stutt síðan mælt var fyrir því og þess vegna ber einnig að þakka þeim umsagnaraðilum sem sáu sér fært að veita umsagnir í málinu og senda þær til allsherjarnefndar á svo stuttum tíma.

Sú breyting sem gerð er í því skyni að veita ríkisstjórninni ráðrúm til að hefja undirbúning að fullgildingu samningsins er sjálfsögð en það ráðrúm hefur ríkisstjórnin reyndar haft því að það er töluvert síðan samningurinn var undirritaður og farið var fram á það við ríki innan Evrópuráðsins að þau fullgiltu hann. Evrópuráðið hefur, sérstaklega síðasta árið, lagt mikla áherslu á aðgerðir gegn mansali. Sú nefnd sem ég starfaði í, jafnréttisnefndin, hefur verið þar afar virk og því hefur verið beint til þjóðþinganna að taka þessi mál sérstaklega fyrir. Þessi samningur gengur lengra en Palermo-bókun við samning Sameinuðu þjóðanna þar sem fjallað er um alþjóðlega og skipulagða glæpastarfsemi, en þar var gerð bókun í nóvember 2000 og þeirri bókun var beint gegn mansali. Þessi samningur gengur lengra og ég tel það því mjög mikið fagnaðarefni ef ríkisstjórn Íslands fullgildir samninginn sem allra fyrst.

Virðulegi forseti. Það var gerður sérstakur samningur um að ég fengi að tala í dálítinn tíma þrátt fyrir tímatakmarkanir annarra. Ég ætla ekki að misnota heimildina, ég veit að þingmenn eru orðnir mjög þreyttir og það er liðið á vinnukvöldið, en í tilefni þess að þetta er síðasti þingfundurinn sem ég er á, og hef ég verið hér í 20 ár, langar mig til að þakka hv. þingmönnum fyrir samstarfið, núverandi þingmönnum og fyrrverandi þingmönnum, forseta þingsins en ekki síst starfsfólki þingsins sem ég hef átt einstaklega gott samstarf við í 20 ár.

Það er auðvitað eftirsjá á vissan hátt að fara héðan en það er líka tilhlökkun að takast á við ný verkefni. Þannig er það alltaf. Ég óska þess að þeir sem starfa áfram á þinginu sjái til þess að virðing þingsins aukist frá því sem nú er. Við skulum hafa það í huga þegar skoðanakannanir eru gerðar og þessi mikilvæga stofnun í íslensku þjóðfélagi fær þá dóma sem hún hefur fengið að undanförnu við hvern er að sakast. Enga nema okkur sjálf sem hér störfum. Við verðum að taka okkur á og vinna þannig að þjóðin beri virðingu fyrir þessari stofnun og treysti henni. Ég óska þess einlæglega að þau ykkar sem ætla að starfa hérna áfram og aðrir nýir þingmenn sem koma til starfa hafi þetta að leiðarljósi en að öðru leyti færi ég hjartans þakkir fyrir frábæran og lærdómsríkan tíma.