134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

umfjöllun um sjávarútvegsmál.

[15:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekkert að tjá mig um það hér og nú hvort það gengur fljótt eða illa að koma frumvörpum ríkisstjórnarinnar í gegnum þingið. Ég hefði hins vegar talið, hæstv. forseti, að á hæstv. forseta hvíldi sú ábyrgð að búa til eðlilegan og lögbundinn farveg fyrir mál í hv. þingi og að hæstv. forseti gæti ekki haldið áfram störfum þingsins með þá stöðu sem uppi er eins og ekkert hafi í skorist. Við erum með mjög brýn mál á sjávarútvegssviðinu. Er það þannig að þau eigi að liggja kyrr í meðförum þingsins næstu daga meðan verið er að afgreiða þessi frumvörp ríkisstjórnarinnar eða hvernig yfirleitt hyggst hæstv. forseti þingsins stýra þessum málum? Er það ef til vill svo, hæstv. forseti, að það verði sjávarútvegsráðherra sem ákveður fundi fyrir hæstv. forseta á nefndasviði? Ég geri út af fyrir sig ekkert lítið úr störfum sjávarútvegsráðherra að því leyti til. Ég tek þeim tilmælum að sjálfsögðu en það er hins vegar ekki samkvæmt formi og venjum þingsins. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna menn setja málin í þetta far þótt þeir viti hvaða staða er uppi. Reyndar hygg ég að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi kannski vitað fyrir helgi hvað gæti verið uppi varðandi tillögugerð Hafrannsóknastofnunar því að erfitt á ég með að trúa því að forstjóri Hafrannsóknastofnunar hafi sent lið sitt til ICES, Alþjóðahafrannsóknaráðsins, með tillögur sem ráðherrann hafði ekki minnstu hugmynd um.