134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:12]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er hvorki offors né ráðríki á ferðinni. Þetta mál var kynnt á fundi fyrir m.a. hv. þingmanni og formönnum stjórnarandstöðuflokkanna og hefði þeim verið í lófa lagið að taka sömu afstöðu og þingmenn Frjálslynda flokksins hafa gert hér sem ætla að greiða fyrir þessu máli vegna þess að þeir líta þannig á að hún sé til góðs, sú breyting sem hér er lögð til, hvað svo sem mönnum kann að finnast um framhaldið.

Hv. þingflokksformaður Framsóknarflokksins vill ganga lengra en þetta frumvarp. Hún lýsti því yfir áðan. Þannig er um fleiri þingmenn hér en einhvers staðar verða menn að byrja.

Það var heppilegt að hv. þingmaður skyldi minnast á umhverfisráðuneytið. Þá var hann í stjórnarmeirihluta og ég í minni hluta. Skyldi hann ekki muna eftir því hvernig þáverandi stjórnarmeirihluti reyndi með offorsi og ráðríki að koma því máli í gegn og tókst á endanum? Ekki var leitað samkomulags um þá hluti. Ekki var vitnað í Bjarna Benediktsson við það tækifæri.