134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

vandi sjávarbyggðanna.

[14:06]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem mestan part hefur verið málefnaleg og fjallar hér um mjög brýnt úrlausnarefni. Það var sagt að svör okkar ráðherranna við því sem vakið var máls á í umræðunni hefðu verið fátækleg og við hefðum sýnt tómlæti. Hvorugt er rétt. Ég vakti einmitt máls á því í ræðu minni áðan hvernig við höfum byggt inn í fiskveiðistjórnarkerfið ýmis byggðaleg tæki til að bregðast við aðstæðum eins og þeim sem hafa komið hér upp og við höfum séð.

Ég vakti máls á því og athygli að við höfum fært til aflaheimildir í þessu skyni. Það hefur auðvitað skilað sér. Ég vakti enn fremur athygli á því að við værum nú að skoða ýmsar leiðir, hugmyndir og tillögur sem lúta að því að reyna að gera þetta kerfi enn þá virkara og skilvirkara en það hefur verið. Er það ekki til marks um að við tökum þessi mál alvarlega? Er það ekki til marks um að við reynum að horfa á þessi mál með hinum byggðalegum augum til að tryggja það að minni sjávarbyggðirnar eigi sér von í því að skapa sér ný tækifæri í sjávarútvegi? Svo gerum við okkur öll grein fyrir því að við þurfum að setja fleiri stoðir undir atvinnulífið á landsbyggðinni.

Þess vegna er skrýtið að hlusta á að menn tali hér um fátækleg svör þegar hæstv. iðnaðarráðherra kemur síðan með fréttir af því að búið sé að auglýsa nú þegar 10 ný opinber störf og von á öðrum 10 á næstunni.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að sú krafa var hæst uppi af hálfu Vestfirðinga fyrr í vetur að auka hlut opinberra starfa og opinberrar starfsemi á Vestfjörðum, einmitt vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir því að það þyrfti að setja fleiri stoðir undir atvinnulífið, einmitt vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir því að störfum í sjávarútvegi hefði fækkað og þess vegna væri mikilvægt að gera þetta.

Ég vek svo líka athygli á því að það eru ýmsar aðrar ástæður fyrir vanda sjávarútvegsins. Sá vandi sem er t.d. uppi í rækjunni á ekkert skylt við fiskveiðistjórnarkerfið eins og allir vita. Þar eru allt aðrar ástæður uppi. Hæstv. ríkisstjórn ákvað jafnframt að gripið yrði til aðgerða gagnvart rækjuiðnaðinum. Þær aðgerðir eru núna í undirbúningi af hálfu (Forseti hringir.) Byggðastofnunar og það mun skipta mjög miklu máli fyrir landsvæði eins og Vestfirði þar sem rækjuiðnaðurinn er svo stór sem raun ber vitni.