134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

viðurkenning Íslands á ríkisstjórn Palestínu.

3. mál
[17:57]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið svolítið sérstakt að hlusta á áherslur hv. þingmanna og vangaveltur um hvort ætti að byrja á að spúla dekkið stjórnborðsmegin eða bakborðsmegin í fyrirkomulagi nefndaskipana á Alþingi viðvíkjandi vandamál í sumum byggðum landsins og lýsa því svo yfir um leið að menn séu tilbúnir til að vaka nætur og daga til að sinna málefnum sem varða Palestínu.

Það er engin spurning að þessi tillaga er af hinu góða. Hún er jákvæð. Íslendingar eiga auðvitað að leggja lið hvarvetna sem þörf er og bágt ástand. En það er mjög mikilvægt að fara af varúð inn í þann pott sem Austurlönd nær eru. Það er mikill munur á því að óska eftir formlegri viðurkenningu eða því að taka upp eðlilegt samstarf, eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur nefnt, sem hlýtur að vera eðlilegt og jákvætt og ástæða til að hvetja til.

Það hefur verið lenska um langt árabil á Íslandi að fréttir í fjölmiðlum hafa tengst umræddum löndum ótrúlega mikið. Þetta hefur svolítið verið að breytast á síðustu missirum. Allt í einu átta menn sig á því að kannski hafi verið fjallað fullmikið um þessi vandamál í Austurlöndum nær og fjær miðað við vandamál annars staðar í heiminum, þar sem eru vissulega verkefni sem þarf að vinna og hjálpa til við. Íslendingar eiga vitanlega af veikum mætti að sinna því einnig.

Það kom fram hjá hv. þm. Bjarna Harðarsyni að það mundi skipta sköpum á heimsmælikvarða hvort Íslendingar tækju þátt í þessari starfsemi varðandi Palestínu eða ekki. Ég held að svo sé ekki. Þeir sem hafa verið á þessu svæði vita hvers lags ormagryfja svæðið er og hve vandasamt er að fylgja þeim hlutum eftir með rökum. Það vita líka allir, þótt ekki sé alltaf verið að flíka því, hvernig Bandaríkin blandast inn í atvik á þessum svæðum á ótrúlegan hátt og sitja svo í súpunni hvað eftir annað. Það á ekki bara við um þessi svæði. Íslendingar hljóta að þurfa að fara mjög varlega inn í þessa kviku sem svæði sem þetta er.

Það þýðir ekki að láta tilfinningar ráða gagnvart Palestínumönnum einum sér. Þeir eru allra góðra hluta verðir en það er bara svo víðar í heiminum. Það má nefna nágranna Palestínumanna þar sem Íslendingar hafa nokkuð komið við sögu með þjónustu og kristniboði í Konsó í Afríku. Þar er líka kúgað fólk. Þar er fólk sem á bágt og hefur þó ekki verið lögð nein sérstök áhersla á það á hv. Alþingi Íslendinga að hjálpa þar til. Þar er þó ástæða til þess. Þar hafa Íslendingar verið í útrás sem er þróuð á íslenskum forsendum. Þannig mætti nefna ótal mörg dæmi en við ættum ekki að láta það ráða helst ferð að ástæða sé til að kitla þetta verkefni af því Bandaríkjamenn komi þar við sögu.

Við þekkjum auðvitað af sögunni að það gildir hið sama um þá eða um Rússa. Það hefur ekki verið hægt að treysta neinu til lengdar frá því svæði, a.m.k. ekki síðan Pétur mikli var við völd. Við gátum ekki einu sinni treyst Bandaríkjamönnum í sambandi við Keflavíkurflugvöll. Við verðum að horfast í augu við staðreyndirnar, að við erum lítil þjóð sem á að vera metnaðarfull og tilbúin að hjálpa til en við breytum ekki gangi heimsmála.

Fyrst skulum við sinna okkar eigin fólki. Það er mitt sjónarmið. Við höfum nóg verkefni á Íslandi við að sinna fólki sem hefur farið halloka og á undir högg að sækja. Það hlýtur fyrst og fremst að vera verkefni okkar sem sjálfstæðrar íslenskrar þjóðar, að rækta þann garð.

En við skulum líka vera tilbúin til að rétta hjálparhönd, til að mynda í Palestínu, því þar er hörmulegt ástand. Ef við getum gert það þannig að það skipti máli og skili árangri þá er það vonandi verkefni hæstv. utanríkisráðherra, ríkisstjórnar og Alþingis og annarra sem vilja leggja lið að gera það vandlega svo eftir verði tekið. En menn mega ekki gleyma að víða annars staðar er fullkomin ástæða til þess að gera samsvarandi hluti. Það er bara svo lítill áhugi á því á Íslandi.