134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

verðbréfaviðskipti.

7. mál
[14:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikill bálkur af efni sem tilheyrir þessum þremur frumvörpum og þar er auðvitað frumvarpið um verðabréfaviðskiptin sýnu mest þar sem fram eru sett ný heildarlög um þau mál. Það er lítill tími til að fara ofan í saumana á þessu í smáatriðum á þessu stutta vorþingi en eftir sem áður er skylt að reyna að átta sig eitthvað á því hvað hér er á ferðinni.

Ég geri í sjálfu sér ekki neinar athugasemdir við að hæstv. ráðherra reyni að fá þessi mál afgreidd vegna þess að það er skiljanlegt að menn vilji hafa einhvern tíma fyrir sér til að undirbúa gildistökuna í haust. Það hefði auðvitað verið æskilegt að þetta hefði náð hér inn á þing á síðasta vetri og getað fengið rækilegri skoðun en unnt verður að gera hér á fáeinum dögum, af því að upp að vissu marki eru í þessu ákvörðunaratriði sem ekki eru sjálfgefin. Þó svo að um sé að ræða lögfestingu tiltekinna Evróputilskipana höfum við visst svigrúm eða visst val í ákveðnum tilvikum um það t.d. hvað við bindum í lög og hvað sett er í reglugerðir og stjórnvaldsfyrirmæli og um slíka hluti væri eðlilegt að Alþingi fjallaði.

Það eru nokkur atriði sem ég vil aðeins drepa á og eftir atvikum beina til hæstv. ráðherra eða fara fram á að skoðuð verði í nefnd, sem reyndar er ekki til enn þá til að taka við þessu máli. Það er í fyrsta lagi að hér er um að ræða rammatilskipun sem síðan er hugsuð þannig að á grundvelli hennar fær framkvæmdastjórn Evrópusambandsins heimildir til að setja ítarlegri reglur. Þá vaknar spurning um það hvernig EES-ríkin standa að vígi gagnvart því ef í raun og veru er búið að framselja til framkvæmdastjórnarinnar reglugerðarsetningarvald sem er þá, ef ég skil rétt, jafnvel að einhverju leyti utan þess hefðbundna samráðsferlis sem á sér stað á grundvelli stofnana eða regluverks EES-samningsins þegar gerðir eru á undirbúningsstigi innan Evrópusambandsins.

Hvernig er aðkoma EES-ríkjanna hugsuð að frekari þróun þessara mála þegar settar verða ítarlegri reglur, eins og þegar er byrjað á reyndar, á öðru stigi einhvers ferils sem kenndur er við Lamfalussy og veit ég nú ekki hver sá góði maður er eða hvað það nafn stendur fyrir. Ferlið er einhvern veginn svona upp sett og það kunna að vera fyrir því rök, að þetta sé svo flókið og viðamikið og verði að takast í áföngum að framkvæmdastjórninni er falið þetta hlutverk á grundvelli þessarar rammatilskipunar. Vangaveltur mínar lúta sem sagt að því: Hver er staða EES-ríkjanna og hver getur aðkoma þeirra verið að málinu á undirbúningsstigi? Er þarna um að ræða framsal sem gengur þá jafnvel lengra en núgildandi aðild okkar að samkeppnisréttinum á grundvelli EES-samningsins hefur gert hingað til?

Í öðru lagi er svo sú staðreynd að hér er verið að hverfa frá því að evrópsk fyrirtæki, vissulega bara á þessu sviði, sviði fjármálaumsvifa, séu skráningar- og eftirlitsskyld í því landi sem starfsemin fer fram. Nú þekki ég það ekki út í hörgul en mér er nær að halda að hér sé verið að brjóta í blað í þessum efnum með því að heimila að eftirlit, starfsleyfi, skráning og allt sem að því lýtur, heimalandsins gildi þó að viðkomandi aðili setji á fót formlega starfsstöð, útibú eða hafi starfsemi í öðru EES-ríki. Þetta er kunnugleg hugsun því að þetta var akkúrat útgangspunktur hinnar illræmdu þjónustutilskipunar sem kennd var við Bolkenstein nokkurn og reynt var að koma á og hefur verið í undirbúningi innan Evrópusambandsins að reyna að knýja í gegn og átti vissulega að ganga miklum mun lengra vegna þess að þá átti ekki bara eftirlit heldur beinlínis allar reglur, og þar með talið allt sem laut að starfskjörum og réttindum starfsmanna, að lúta heimalandinu sem hefði þýtt að þjónustuaðili, t.d. portúgalskur, sem væri með starfsemi hér hefði verið í fullum rétti til að borga starfsfólki sínu á Íslandi, sem starfaði fyrir hans hönd að því að veita tiltekna þjónustu, portúgölsk laun og hafa það á portúgölskum starfskjörum og portúgölskum réttindum.

Þetta var náttúrlega og er eitt allra umdeildasta ákvæðið í þessari fyrirhuguðu þjónustutilskipun og hefur andstaða ekki síst Norðurlandanna leitt til þess að hún hefur ekki náðst í gegn en hér er, þó að kannski í litlu sé, farið út á sömu braut í gegnum það að valdið til að hafa eftirlit með ýmissi starfsemi fjármálafyrirtækjanna flyst frá gistiríkinu, landinu þar sem starfsemin fer fram, þar sem útibúið er, og til heimalandsins. Þetta er þáttur sem ég tel að fara þurfi mjög rækilega yfir. Við eigum sjálfsagt ekki mikið val í þessum efnum þar sem þetta er væntanlega óaðskiljanlegur hluti af MiFID-tilskipuninni eða þessu regluverki, þessu móverki öllu saman. Það er engu að síður svo að pólitískt hljótum við að velta því fyrir okkur hvað þarna er að gerast og reyna að átta okkur á því hvernig það liggur.

Ofan í þessa þætti málsins, virðulegur forseti, hefði ég talið sérstaka ástæðu til að fara þó að auðvitað sé þarna örugglega margt, margt fleira á þeim hundruðum blaðsíðna sem um þetta fjalla sem ástæða væri til að skoða eftir því sem tími vinnst þá til.