134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:43]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð einhverja sérstaka forskrift um það hvernig ráðherrar eigi að vera og hvernig þeir eigi að tala? Er það skoðun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að ráðherrar hafi ekki málfrelsi hér?

Nú ætla ég að segja hv. þingmanni það sem er mála sannast að ég er bara eins og ég er með öllum mínum göllum, sem allir þeir sem hér starfa þekkja mætavel, og hugsanlega einhverjum kostum líka, ég veit ekkert um það. En ég mun ekkert breytast og svona ætla ég að vera og mér líkar vel að vera svona. Hv. þingmaður verður bara að drekka þann beiska kaleik í botn og ég veit að hún lifir það af, hún hefur gert það áður.

Hv. þingmaður kemur og segir að það sé undarlegt að iðnaðarráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar Össur Skarphéðinsson skuli vera svona metnaðarlaus að tala um það að minnka kynbundinn launamun um helming á fjórum árum. Það er þó snöggtum betra en henni og hennar samferðafólki í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ásamt samstarfsmönnum í Reykjavíkurlistanum tókst að gera. Það tók þau sex ár. Munurinn á Vinstri grænum og Samfylkingunni er sá að við erum pragmatískari í pólitík. Við leitum að lausnum og við lærum af reynslunni.

Við sáum að það tók hv. þm. Árna Þór Sigurðsson og félaga hans úti í Ráðhúsi sex ár svo við teljum að við gætum kannski gert það á fjórum árum. Þó skal ég viðurkenna, og hugsanlega gæti hv. þm. Árni Þór Sigurðsson verið mér sammála um það, að það er háleitt markmið en það er raunhæft markmið. En Vinstri hreyfingin – grænt framboð setur sér kannski ekki raunhæf markmið. Þetta er nú það sem ég vil segja við hv. þingmann og aðeins að lokum, herra forseti: Ég tala ekki niður til þingmanna hér. Ég skamma þá kannski en ég segi þeim ekki hvernig þeir eigi að vera til fara og ekki hvernig þeir eigi að tala og ég ætla ekki að koma með neinar athugasemdir við það hvernig hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hagar máli sínu. (Forseti hringir.) En ég tala eins og mér sjálfum sýnist á meðan forseti meinar mér það ekki.