134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[10:57]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu sína frá 23. maí sl. samþykkti ríkisstjórnin að þegar yrði undirbúið að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Með þessari aðgerðaáætlun, sem unnin var af fulltrúum fimm ráðuneyta undir forustu Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, er í fyrsta sinn lögð fram heildstæð áætlun um að styrkja stöðu barna og ungmenna hér í samfélaginu. Í langan tíma hefur verið kallað eftir því að mótuð verði stefna og aðgerðaáætlun í málefnum barna og var m.a. á árinu 2001 samþykkt tillaga þar að lútandi á Alþingi en henni var ekki fylgt eftir í stjórnsýslunni eins og skyldi og komst ekki til framkvæmda. Jafnframt var fyrir nokkrum árum skipuð fjölskyldunefnd á vegum þáverandi forsætisráðherra en ekki hefur heyrst af niðurstöðum þeirrar nefndar. Það er mér því mikið ánægjuefni að fyrsta þingmálið sem ég mæli fyrir nú sem félagsmálaráðherra skuli verða aðgerðaáætlun í málefnum barna og unglinga sem hrinda á í framkvæmd á árunum 2007–2011 eða á kjörtímabilinu.

Virðulegi forseti. Ég mun í stuttu máli kynna meginatriði þessarar aðgerðaáætlunar en verksvið þessara aðgerða kemur í hlut fjögurra ráðuneyta, félags-, heilbrigðis-, mennta- og dómsmálaráðuneytisins auk fjármálaráðuneytisins. Afar mikilvægt er að gert er ráð fyrir að skipaður verði samráðshópur þessara ráðuneyta sem stuðla á að samræmingu og eftirfylgni aðgerða undir forustu félagsmálaráðuneytisins.

Auk þess að framfylgja þessum aðgerðum sem lýst er í aðgerðaáætluninni er það verkefni samráðshópsins að yfirfara og bregðast við með hvaða hætti skuli farið að tilmælum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins um stefnu til eflingar foreldrahæfni og drög að samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðisofbeldi. Ég vænti mikils af þessum starfshópi en framförum í málefnum barna og ungmenna hefur staðið fyrir þrifum að málaflokkurinn heyrir undir fjögur fagráðuneyti og samræmingu og heildaryfirsýn hefur því vantað.

Á samráðsvettvangi ríkis, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga, sem stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að settur verði á fót, verði mótaðar tillögur til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Lögð verður á það áhersla að á slíkum vettvangi verði tillögur aðgerðaáætlunarinnar, m.a. um styttri og sveigjanlegri vinnutíma, mótaðar og hvernig tryggja megi að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum vegna veikinda þeirra eða fötlunar.

Á öðrum Norðurlöndum er fæðingartíðni talsvert lægri en hér á landi en við höfum verið eftirbátar þeirra í mörgum þáttum er lúta að velferðarþjónustu við börn. Þó að börn og ungmenni séu hér hlutfallslega fleiri en annars staðar á Norðurlöndunum hafa þau fyrir löngu mótað sér aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna. Íslendingar vinna mun lengri vinnudag en þær þjóðir sem við berum okkur saman við, m.a. 20% lengri vinnudag en annars staðar á Norðurlöndunum. Við slíkar aðstæður er það skylda stjórnvalda að búa vel að umhverfi og aðbúnaði barnafjölskyldna ekki síst í ljósi þess að hér hafa foreldrar sjaldnast val, þung framfærslubyrði flestra knýr báða foreldra til að vera á vinnumarkaðnum. Þetta leggur líka skyldur á aðila vinnumarkaðarins þannig að aðstæður á vinnumarkaði séu með þeim hætti að einnig sé horft á þær út frá hag og velferð fjölskyldna eins og með sveigjanlegri og styttri vinnutíma. Ég er sannfærð um að ef horft er á málin út frá sjónarhóli fjölskyldunnar einnig er það ekki bara ávinningur fyrir heimilin heldur einnig fyrirtækin og atvinnulífið í landinu.

Við þekkjum það vel að margar kannanir sem gerðar hafa verið hér á landi sýna fylgni á milli samverustunda foreldra og barna og gengis barnanna í skóla og félagslega. Þeim mun meiri sem samskiptin eru þeim mun betur vegnar börnum. Það er því allra hagur að fara yfir það hvernig við getum betur náð jafnvægi á þessu sviði.

Það er ástæða til að fagna því að íslenskir karlar skera sig úr hvað varðar þátttöku í fæðingarorlofi í alþjóðlegum samanburði en eins og hv. þingmenn vita nýta yfir 90% þeirra sér rúmlega þriggja mánaða fæðingarorlof. Ég er sannfærð um að nú er lag til þess að jafna fjölskylduábyrgðina enn frekar og samhliða vil ég að við fylgjum því vel eftir að konur njóti fulls réttar á vinnumarkaði að því er varðar launakjör og ábyrgð. Þetta spilar allt saman og myndar jafnvægi sem skilar sér í betra samfélagi fyrir komandi kynslóðir.

Í þessari aðgerðaáætlun er lagt til að fæðingarorlof verði lengt í áföngum. Flutt verður frumvarp á kjörtímabilinu um lengingu fæðingarorlofs í áföngum þannig að það verði tólf mánuðir þegar það er komið að fullu til framkvæmda. Þetta tel ég einkar mikilvægt því að þetta mun gera foreldrum betur kleift en áður að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur fram til þess tíma sem leikskólaaldri er náð. Ég mun sérstaklega láta skoða stöðu einstæðra foreldra þegar fæðingarorlofið verður lengt. Jafnframt þarf að kanna hvernig fæðingarorlof í tólf mánuði mun skiptast milli mæðra og feðra.

Í aðgerðaáætluninni eru tilteknar aðrar mjög mikilvægar aðgerðir til að bæta afkomu barnafjölskyldna. Eitt það mikilvæga í þessari áætlun er að jafna stöðu barna og ungmenna í samfélaginu óháð efnahag. Þar gegna barnabætur miklu hlutverki en lagt er til að barnabætur til tekjulágra fjölskyldna verði hækkaðar. Barnabætur byrja nú að skerðast við 93 þús. kr. hjá einstæðu foreldri og er afar brýnt að fjölga í þeim hópi tekjulágra sem fá óskertar barnabætur.

Engin ákvörðun liggur fyrir um hve mikið skerðingarmörkin verða rýmkuð en sem dæmi má taka að ef skerðingin byrjar ekki fyrr en við 125 þús. kr., sem samsvarar lágmarkstekjutryggingu á vinnumarkaði, í stað 93 þús. kr. og tvöfalt meira hjá hjónum mundi fjölga í hópi þeirra barna sem fá óskertar barnabætur um tæplega 5 þúsund börn.

Annað mikilvægt fyrir afkomu fjölskyldna er að tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna. Ný rannsókn, MUNNÍS-rannsóknin svonefnda, dró upp dökka mynd af tannheilsu íslenskra barna. Í norrænum samanburði lætur nærri að íslensk börn og ungmenni séu að meðaltali með tvöfalt fleiri skemmdar tennur en samanburðarhópur í Svíþjóð og er staðan verri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Við þessu verður að bregðast og það er gert í þessari áætlun.

Í samvinnu við frjáls félagasamtök og sveitarfélög verður unnið að því að bæta aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi, ekki síst þeirra er búa við veikar fjárhagslegar aðstæður. Þetta er lykilatriði til að ná því markmiði að 5 þúsund börn sem nú búa við fátækt njóti meira jafnræðis á við börn sem búa við betri fjárhagsaðstæður foreldra. Þá munu nemendur í framhaldsskólum njóta stuðnings til kaupa á bókum og öðrum námsgögnum. Allt verður þetta síðan nánar útfært af viðkomandi fagráðherrum.

Þá legg ég ríka áherslu á að staða einstæðra og forsjárlausra foreldra verði skoðuð en á það hefur skort að mínu mati. Þetta eru viðkvæmir hópar og rannsóknir sýna að mikil hætta er á að þau börn sem búa við lakastar aðstæður séu börn einstæðra foreldra. Við vitum að álag á þessum hópum er gífurlegt í því hraða nútímasamfélagi sem við búum í. Mér finnst óásættanlegt að ekki sé reynt að jafna aðstæður barna í samfélaginu almennt og hér er hópur sem okkur ber skylda til skoða sérstaklega.

Vissulega eiga börn rétt á að umgangast báða foreldra sína ef þess er nokkur kostur ella fara þau og það foreldri sem ekki nýtur reglulegrar umgengni á mis við afar mikið. Stöðu forsjárlausra foreldra þarf að skoða sérstaklega í því ljósi en forsjárlausir feður eru margir í hópi þeirra sem njóta fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögum og er mikilvægt að kortleggja betur stöðu þeirra, kjör og aðbúnað í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Í aðgerðaáætluninni er kveðið á um að auka beri fjölbreytni í meðferðartilboðum fyrir börn og ungmenni með hegðunarerfiðleika og vímuefnavanda. Sérstaklega er kveðið á um að þetta beri að gera með því að innleiða sérhæfða meðferð sem veitt er utan stofnana á vettvangi fjölskyldunnar og í nánasta umhverfi barnsins. Rannsóknir erlendis og að nokkru leyti hérlendis hafa leitt í ljós ýmsar takmarkanir á hefðbundinni stofnanameðferð. Að minnsta kosti er óhætt að fullyrða að meðferð á vistunarstofnunum mætir alls ekki þörfum allra barna og jafnframt sé æskilegt að leita allra leiða til að fyrirbyggja stofnanameðferð ef þess er nokkur kostur. Í nágrannalöndum okkar eins og í Noregi hefur þessi leið verið reynd með góðum árangri.

Ástæða er til að nefna að það hefur ekki verið nægilega skilvirkt að Barnaverndarstofu er ætlað að sjá um meðferðarúrræði en sveitarfélögum er ætlað að veita eftirfylgd og stuðning þeim börnum sem lokið hafa meðferð. Þetta hefur ekki gengið sem skyldi og meðferðarárangur hefur oft tapast skjótt af þeim sökum. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að fyrirkomulag eftirfylgdar verði endurskoðað með það fyrir augum að gera það markvissara svo tryggt sé að ungmenni sem lokið hafa stofnanameðferð fái viðunandi stuðning að henni lokinni.

Kveðið er á um almennar forvarna- og lýðheilsuaðgerðir í áætluninni sem varða hreyfingu, bætta næringu og fæðuval barna. Lögð verður áhersla á fræðslu, meðferð og aðgengi að hollum mat og hreyfingu. Nýleg rannsókn á lifnaðarháttum 9–15 ára skólabarna hér á landi leiddi í ljós að þrátt fyrir að fleiri börn stundi nú skipulega íþróttastarfsemi hefur kyrrsetustundum þeirra fjölgað. Margar íslenskar kannanir sýna að líðan barna í grunnskóla er ekki viðunandi, of mörg börn þjást af kvíðaköstum sem leiða til þunglyndis. Á kjörtímabilinu verður beitt forvörnum í vaxandi mæli, hugað verður sérstaklega að leiðum til að fyrirbyggja andlega og félagslega vanlíðan barna. Lögð verður áhersla á fræðslu og forvarnir gegn áfengisneyslu og annarra skaðlegra vímuefna.

Virðulegi forseti. Það verður forgangsmál þessarar ríkisstjórnar að grípa til aðgerða í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik. Þegar verður sett vinna í það verkefni og unnið eins hratt og nokkur kostur er að vinna á biðlistum á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss. Við vitum að þau börn sem bíða eftir úrlausn sinna mála hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og hjá fleiri aðilum skipta hundruðum. Biðlistar eru langir og sumir hafa þurft að bíða í tvö til þrjú ár. Hver vika, hver mánuður sem hægt er að flýta greiningu barna með geðraskanir eða þroskafrávik skiptir máli til að börnin geti fengið viðunandi úrræði í skólakerfinu að lokinni greiningu.

Leitað verður allra leiða til að betra jafnvægi náist á milli framboðs og eftirspurnar svo að börn í vanda þurfi ekki að bíða mánuðum saman eftir þjónustu sem skipt getur sköpum í lífi þeirra. Eftirfylgni með börnum og ungmennum sem lokið hafa meðferð vegna geðraskana mun verða efld til muna á vegum heilsugæslna, skóla og sveitarfélaga í þeim tilgangi að glata ekki niður þeim árangri sem meðferðin skilaði.

Þrátt fyrir margvíslega endurskipulagningu hafa biðlistar á Greiningarstöðinni verið allt of langir og um síðustu áramót voru 276 börn á biðlista eftir greiningu og sum þeirra hafa beðið í allt að þrjú ár. Það er hægt að vinna á biðlistunum með því að setja á fót teymi fagfólks og sérfræðinga og ná verulegum og skjótum árangri og jafnvægi á biðlista sem ella önnuðu bara nýliðun og biðlistinn héldist að öðru leyti óbreyttur.

Ég vil jafnframt vekja sérstaklega athygli á því að tillagan gerir ráð fyrir að unnið verði að bættri stöðu langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Þetta er afar mikilvægt atriði. Það var stigið skref með sérstökum greiðslum til foreldra langveikra barna á síðasta kjörtímabili en ég vil taka það til ítarlegrar skoðunar hvort unnt verði að koma á frekari stuðningi við þennan hóp. Það hefur gífurleg samfélagsleg áhrif þegar fótunum er kippt undan heilu fjölskyldunum vegna langvarandi veikinda barna og unglinga.

Lögð verður líka aukin áhersla á fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir börn og ungmenni sem eiga við hegðunar- og vímuefnavanda að stríða. Sú stofnanavistun sem við þekkjum best hefur því miður ekki skilað þeim árangri sem til var ætlast, enda þótt margir hafi unnið óeigingjarnt starf við rekstur meðferðarheimila víða um land og eiga heiður skilinn fyrir það. Erlendar rannsóknir sýna fram á að meðferð sem veitt er á vettvangi fjölskyldunnar og í nánasta umhverfi barnsins er góður valkostur við stofnanameðferð. Óhætt er að fullyrða að eitt það erfiðasta sem foreldrar ganga í gegnum er að sjá á eftir barni sínu í heim fíkniefnanna. Það er mikilvægt að ráðgjöf og fræðsla til þeirra verði aukin og reynt verði að tryggja aðgang að símaráðgjöf allan sólarhringinn í samvinnu við frjáls félagasamtök. Bregðast verður skjótt við í málefnum barna og ungmenna með vímuefnavanda og beita verður markvissri íhlutun strax á fyrstu stigum neyslunnar. Á kjörtímabilinu verður m.a. í samvinnu við frjáls félagasamtök unnið að heildstæðri aðgerðaáætlun í forvörnum vegna vímuefnaneyslu barna.

Á kjörtímabilinu verður markvisst unnið að því að efla forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi, þar með talið barnaklámi sem er því miður vaxandi vandamál sem m.a. tengist nútímatækni. Gert er ráð fyrir að starfsemi Barnahúss sem þverfaglegrar miðstöðvar vegna kynferðisbrota á börnum verði styrkt, einkum að því er varðar skýrslutöku á börnum og meðferð þeirra.

Loks vil ég nefna kaflann um aðgerðir í þágu barna innflytjenda en þar eru lagðar til margvíslegar aðgerðir til að styrkja stöðu þeirra í íslensku samfélagi.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og barnafjölskyldna á vettvangi Stjórnarráðsins. Samráðshópur fimm ráðuneyta á að fjalla um aðgerðir innan ramma hvers fagráðuneytis er sérstaklega beinist að börnum og ungmennum en slíkan samráðsvettvang hefur skort í stjórnsýslunni. Margt er unnið innan ramma hvers fagráðuneytis er sérstaklega snýr að þessum hópum í samfélaginu en einnig eru mörg málefni þess eðlis að þau snerta fleiri en eitt fagráðuneyti og í slíkum málum getur verið óljóst hvar ábyrgðin er í einstökum málum og hvar hún liggur sem er bagalegt fyrir framgang mála og hefur komið niður á börnum og foreldrum þeirra.

Virðulegi forseti. Ég er sannfærð um að aðgerðaáætlunin mun raunverulega bæta aðstæður barna og ungmenna og fjölskyldna hér á landi og ég mun leggja ríka áherslu á að henni verði fylgt eftir í samráðshópi fulltrúa þeirra fimm ráðherra sem bera ábyrgð á einstökum aðgerðum. Þessi aðgerðaáætlun kemur til framkvæmda á kjörtímabilinu eins og áður sagði og verður kostnaður metinn eftir því sem verkinu vindur fram og mál tengd áætluninni verða lögð fyrir Alþingi. Ljóst er að í framkvæmd er um verulega fjármuni að ræða sem skipta milljörðum þegar öll aðgerðaáætlunin er komin til framkvæmda en hér er um forgangsverkefni að ræða ásamt málefnum lífeyrisþega og verður þeim komið til framkvæmda á kjörtímabilinu. Er því rétt að halda til haga hér í lokin að það er líka dýrt fyrir fjölskyldur og samfélagið í heild að búa ekki vel að börnum og ungmennum sem erfa munu landið. Það getur verið enn kostnaðarsamara og dýrkeyptara fyrir þjóðfélagið en framkvæmd þeirrar aðgerðaáætlunar sem við hér fjöllum um.

Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til hv. félagsmálanefndar.