134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:01]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki eins og það sé mikil ástargleði í herbúðum hæstv. iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, a.m.k. miðað við upphlaup hans áðan. Það sem ég hef sagt hér, og hæstv. ráðherra hefði betur hlustað á þær ræður mínar, er að menn geta útfært tillögur með ýmsum hætti. Ég er sammála innihaldi þessa frumvarps en ætla hv. þingmenn að hækka barnabætur um 10 milljarða, 5 eða 1? Það liggur ekki fyrir. Það er erfitt að taka afstöðu til þeirra. Að sjálfsögðu tek ég jákvætt í það að menn ætli að hækka barnabætur en það á eftir að útfæra ýmsa hluti.

Hins vegar segir hæstv. ráðherra að sá sem hér stendur hafi skipt um skoðun snögglega. Eru það ekki stórtíðindi í íslensku efnahagslífi þegar kveðið er á um þriðjungs samdrátt í þorskveiðum hér við land? Eiga menn ekkert að skoða þá stöðu sem þá er uppi, bæði með tilliti til sjávarbyggðanna, og nú beini ég orðum mínum til hæstv. byggðamálaráðherra, eða til stöðu þjóðarbúsins almennt? Er það ábyrgðarleysi hjá þeim sem hér stendur að hugsa hlutina eitthvað upp á nýtt í ljósi þeirra staðreynda sem nú blasa við?

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur er hvorki reiður né sár. Ég kem einfaldlega inn í þessa umræðu með ábendingar um að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki lagt nógu mikla vinnu í að vanda nægilega til verksins en eins og fram hefur komið hjá hæstv. ráðherrum er heilmikil vinna eftir í því. Ég nefndi jöfnunarstyrk til framhaldsskólanema. Það getur vel verið að það vanti margt annað inn í.

Þetta eru tillögur af þeirri gerð sem hægt er að útfæra með ýmsum hætti. Ég er jákvæður gagnvart því en því miður liggur ekkert fyrir um útfærsluna. Það sem ég sagði var að betra hefði verið fyrir ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann að vinna heimavinnuna sína og leggja þetta mál fram í haust og þá hefði verið (Forseti hringir.) hægt að átta sig betur á því hvað það snýst um.