134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

stuðningur við innrásina í Írak og stjórn Palestínu.

[10:43]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þegar rætt er um innrásina í Írak þarf auðvitað fyrst og fremst að hafa það í huga að stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem ríkin sem að Sameinuðu þjóðunum standa hafa sameinast um að hafa sem sínar leikreglur og virða, gerir ekki ráð fyrir því að heimilað sé að ráðast inn í ríki með þeim hætti sem þarna var ákveðið. Það hlýtur að vera hlutverk hverrar ríkisstjórnar sem situr, bæði þessarar sem nú er og þeirrar sem fyrir var, að virða þær leikreglur sem við höfum samþykkt á Alþingi að hafa sem leikreglur Sameinuðu þjóðanna.

Ég mælist því til þess, virðulegi forseti, sérstaklega í ljósi þess að við erum að sækjast eftir því að fá sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, að ríkisstjórnin fari að stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og að ekki verði framvegis álitamál eða uppákomur eins og fyrir fjórum árum þegar þáverandi ríkisstjórn ákvað að sniðganga þær leikreglur sem hún er bundin af.

Virðulegi forseti. Það er fleira í þjóðfélaginu sem vert er að ræða en gömul mál sem löngu eru útrædd. Fyrir nokkrum dögum var ákveðið í bankaráði Seðlabankans að hækka laun seðlabankastjóranna um 200 þús. kr. ofan á hækkun sem hefur síðustu tvö ár orðið þrisvar sinnum, samtals um 25%. Í gær kom álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem varað er við ofþenslu, lausatöku með hagstjórn og hvatti hún sérstaklega til þess að hafa hemil á launahækkunum í kjarasamningum á þessu ári. Mig langar því að fá skýringar hjá þeim sem stóðu að þessari kauphækkun, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Samfylkingu, hvað þeim gengur til að senda launþegum þessa lands þessi skilaboð, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.