134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:51]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi varðandi skerðingarnar: Það sem gerist er að menn sem eru með tekjur upp að 80 þús. fá engar skerðingar, á bilinu 80–200 þús. kr. eru þeir með 40% skerðingar. Telur hv. þingmaður að hægt sé að bjóða öldruðum sem eru orðnir sjötugir að aldri að fá skerðingar strax við 80 þús. kr. upp á 40% í stað þess sem ríkisstjórnin er að bjóða, að menn geti unnið alveg frítt án þess að það hafi nokkur áhrif?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann: Hér er lagt til að þessi breyting nái til öryrkja líka. Það var aldrei í umræðunni við Samtök aldraða. Er hv. þingmaður tilbúin til að segja við aldraða að við ætlum að láta stóran hluta af þeim fjármunum sem áttu að renna til aldraðra renna til öryrkja, sem eflaust eiga þetta skilið líka, þannig að aldraðir njóti ekki þessara fjármuna einir?

Það að menn þrauki í þrjú ár. Fólk er miklu sprækara í dag en fólk var áður. Þegar menn verða 67 ára halda þeir áfram að vinna, hafa sömu laun og áður. Þeir eru ekkert að þrauka eitt eða neitt, þeir fara bara ekki á eftirlaun. Þegar þeir eru orðnir sjötugir fá þeir bætur frá Tryggingastofnun án skerðingar. Þannig sé ég þetta fyrir mér. Menn eru ekkert að þrauka neitt. Og varðandi einfaldleikann, það er afskaplega einfalt að segja við fólk: Þegar þú ert orðinn sjötugur máttu vinna eins og þú vilt.