134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:59]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég rita undir það nefndarálit sem kemur frá minni hluta heilbrigðisnefndar og fyrir því hefur verið mælt af hv. þm. Þuríði Backman. En til viðbótar því sem þar kemur fram langar mig að segja hér nokkur orð um þetta mál sem fulltrúi Framsóknarflokksins í heilbrigðisnefnd.

Ég get ekki stutt frumvarp hæstv. ríkisstjórnar sem gengur út á það að afnema öll áhrif atvinnutekna á greiðslur á tryggingabætur. Það er ósköp einfalt. Það kemur til af því að þetta frumvarp gengur ekki út á að jafna kjörin, það gengur ekki út á jöfnun. Það er ekkert gert fyrir hópinn 67–70 ára og það er ekkert gert fyrir öryrkja almennt. Mér finnst þetta mjög sérkennilegar áherslur, ekki síst með tilliti til þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að leggja eigi áherslu á bættan hag aldraðra og öryrkja og það verði unnið að einföldun almannatryggingakerfisins. Það er nú aldeilis ekki verið að gera það með þessum tillögum og það er ekkert litið til öryrkja.

Miðað við þau orð sem hér hafa fallið af hálfu hv. þm. Péturs H. Blöndals finnst mér hann líta á það sem trúarbrögð að taka þann hóp sem er 70 ára og eldri út úr og að hann geti aflað sér tekna að vild án þess að það skerði bætur. Ég veit ekki hvað gerðist á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var í vetur en það var eitthvað mikið sem gerðist þar, kannski hefur það eitthvað með trúarbrögð að gera. Það getur vel verið. En niðurstaða þess fundar var sú að þessi leið skyldi farin og þess vegna stöndum við frammi fyrir því að vera að fjalla um þetta frumvarp á vorþinginu og það mátti greinilega ekki bíða. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn náði fram og að Samfylkingin náði því fram að fjallað yrði um það mál sem næst er á dagskrá og varðar börn og ungmenni. Það er eins og hlutirnir gerast í pólitíkinni og svo sem ekkert um það að segja nema að þessi skyndilega áhersla þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki kom mér nokkuð á óvart. Við höfum auðvitað starfað lengi með sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn og þar hafa þessi mál að sjálfsögðu oft verið til umfjöllunar en takmarkaður árangur náðst að mínu mati til að bæta kjör aldraðra. Það gerðist þó í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar að skipuð var nefnd undir forustu Ásmundar Stefánssonar í janúar 2006. Ég les hér upp úr fréttatilkynningu, hæstv. forseti, um skipan þessarar nefndar:

„Forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd með fulltrúum stjórnvalda og Landssambands eldri borgara. Verkefni nefndarinnar er tvíþætt: Annars vegar að fjalla um búsetu- og þjónustumál aldraðra með tilliti til fjölbreyttari búsetuforma, stoðþjónustu og samþættingar heimahjúkrunar og félagslegrar heimilisþjónustu. Hins vegar að skoða fyrirkomulag tekjutengingar bóta með hliðsjón af skerðingu bóta lífeyrisþega vegna tekjuöflunar þar sem jafnframt verði þó horft til tekjujöfnunarhlutverks tekjutengingar bóta.“

Síðan starfaði þessi nefnd í allmarga mánuði og skilaði af sér 19. júlí 2006. Afraksturinn er sá sem hér kemur fram, með leyfi forseta, þ.e. meginatriði tillagnanna eru eftirfarandi:

„Hækkun lífeyrisgreiðslna almannatrygginga. Einföldun bótakerfisins með fækkun og sameiningu bótaflokka. Lækkun skerðingar bóta vegna tekna maka. Lækkun skerðingar bóta vegna annarra tekna bótaþega. Tekið verði upp frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Hækkun vasapeninga. Starfslok verði sveigjanleg þannig að lífeyrisgreiðslur hækki við frestun á töku lífeyris. Heimaþjónusta verði stóraukin og áhersla færð frá stofnanaþjónustu. Fjármagn sem nú gengur til reksturs stofnana úr Framkvæmdasjóði aldraðra gangi til uppbyggingar öldrunarstofnana. Verulega aukið fjármagn til framkvæmda og reksturs til átaks vegna biðlista eftir hjúkrunarrými. Aukin áhersla verði lögð á fullnægjandi framboð þjónustu- og öryggisíbúða.“

Undir þetta rituðu bæði fulltrúar ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara. Þarna er ekki talað neitt um að fara eigi í þá aðgerð sem hér er lögð til af hálfu ríkisstjórnarinnar, enda varð hún til á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og samfylkingarmenn láta sér það líka þrátt fyrir að í tillögunum felist ekki jöfnuður.

Landssamband eldri borgara hefur komið á fund til okkar og við höfum fengið áherslur frá samtökunum sem eru dagsettar 7. júní 2007. Þar er tekið fram að samtökin styðji þetta frumvarp en leggi vissulega líka þunga áherslu á aðra þætti eins og þá að tekið sé á málefnum aldraðra frá 67 ára aldri. Að því leyti til er fundið að frumvarpinu sem varðar bara 70 ára og eldri. Síðan er líka lögð áhersla á að grunnlífeyrir verði hækkaður og hann verði ekki skertur vegna annarra tekna. Grunnlífeyrir er ekki hækkaður með þessum tillögum en auðvitað eigum við eftir að sjá fleiri tillögur frá hæstv. ríkisstjórn, reikna ég með, sem varða þennan mikilvæga málaflokk.

Hæstv. forseti. Þetta vildi ég segja í þessari umræðu. Miðað við það að við tókum upp fyrir nokkrum mánuðum síðan frítekjumark sem er 300 þús. kr. á ári þá er ekki skynsamleg tillaga að stökkva strax út í það að afnema alla tengingu atvinnutekna frá 70 ára aldri. Þess vegna munum við framsóknarmenn ekki styðja þetta frumvarp. Við höfum hins vegar lagt fram aðra leið, sem hér hefur verð gerð grein fyrir af hálfu hv. þm. Þuríðar Backman, þar sem verið er að hækka frítekjumarkið verulega. Það er sú leið sem við framsóknarmenn töluðum um fyrir kosningar og viljum gjarnan að sé farin. (Gripið fram í: Samfylkingin …) Samfylkingin mun líka hafa talað fyrir því fyrir kosningar. En það er sem sagt einhver sálfræði sem felst í þessari tillögu og það verða aðrir að útskýra hana en ég.