134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[12:10]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vitnaði í landsfund Sjálfstæðisflokksins vegna þess að mér er það mjög minnisstætt þegar ég fékk þessar fréttir af fundinum og hvað gera átti mikið fyrir aldraða, vegna þess að það var ekki sú reynsla sem ég hafði af Sjálfstæðisflokknum í samstarfinu í ríkisstjórninni. En á þessum landsfundi var allt í einu allt hægt að gera.

Vegna þess að taka á skref síðar hvað varðar hópinn frá 67 til 70 ára, þá undrast ég það svolítið að þessi hópur skuli vera klofinn upp með tillöguflutningi núna og nefni að það kom fram á fundi í heilbrigðisnefnd frá aðilum vinnumarkaðarins að áhugavert væri að fresta þessu máli meðan það væri ekki fullunnið. Því er ekki hægt annað en undrast að það skulu koma fram tillaga núna á vorþinginu sem varðar bara þennan hóp.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann vegna þess að það er verið að tala um 600 manns sem eru orðin 70 ára en eru ekki inni í kerfinu í dag. Ef þetta fólk, við skulum segja helmingurinn, mundi stimpla sig inn í kerfið, 300 manns, og þar að auki ætti þessi 300 manna hópur rétt á grunnlífeyri fyrir síðustu ár, þá gæti hann tekið út grunnlífeyri fyrir tvö síðustu ár auk þess sem hann gæti fengið í hverjum einasta mánuði yfir hundrað þúsund kall. Hann var ekki í kerfinu áður en gæti þá fengið sem eingreiðslu hálfa milljón. Þarna geta hrokkið út fleiri tugir milljóna. Þess vegna er sú kostnaðaráætlun sem liggur fyrir með frumvarpinu eiginlega mjög ómarkviss og það veit enginn hvað þetta kemur til með að kosta.