134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[16:46]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 10. þm. Norðaust., Höskuldur Þórhallsson, spyr um útfærsluna varðandi tannheilsu og af hverju nefndir séu skólar í því samhengi. Það má skýra svo út að það varð góð umræða í nefndinni, eins og honum er kunnugt um, um hvort taka ætti upp skólatannlækningar að nýju. Það kom fram í umræðunni að sjónarsviptir hefði orðið að skólatannlækningum á sínum tíma en jafnframt kom fram að útilokað væri að endurreisa þær. Við settum því inn í nefndarálitið að með einhverjum hætti þyrfti að tryggja aðgengi að þessum krökkum, t.d. með skipulegri innköllun þaðan sem öll börnin væru, þ.e. í skólunum. Það er ekki lengra komið í útfærslu en með þeim hætti að tannlæknar fengju leyfi til að kalla inn börn og hafa samband við þau í gegnum skólakerfið. Þannig skildi ég útfærsluna en auðvitað á eftir að útfæra það frekar. Raunar er þegar komið í gang frá fyrri ríkisstjórn ákveðið eftirlitskerfi sem gæti orðið grunnurinn að framhaldinu, svo það komi fram líka.

Varðandi biðlistana kom það fram hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni að það sem átt var við með árangurstengingu var einfaldlega að hægt yrði að leita til aðila til að sinna verkefnum sem menn kæmust ekki yfir á Greiningar- og ráðgjafarstöðinni nú þegar, til væru aðilar í landinu sem væri tilbúnir að vinna þessa vinnu og hægt að leita til þeirra.

Þetta orð „árangurstenging“ er villandi. Ég er sammála því vegna þess að það er ekki verið að tala um annað en að skilgreina kröfur frá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni um hvernig eigi að vinna. Þeir hafa umsjón með því og líta á það að leysa biðlistana sem skammtímaúrræði. Það kom skýrt fram frá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni hvað átt var við í sambandi við árangursmælinguna í þingsályktunartillögunni. Þetta skýrðist áðan í nefndinni.