135. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:36]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Herra forseti. Einn þingmanna stjórnarandstöðuflokkanna sagði í dag að stjórnarandstaðan og samstarf hennar væri algjörlega óskrifað blað. Það eru út af fyrir sig athyglisverðar upplýsingar nú þegar fimm mánuðir eru liðnir frá kosningum, en segir sína sögu. Það má kannski segja sem svo að tilraun hafi verið gerð til þess af hálfu stjórnarandstöðunnar að pára dálítið á blaðið í kvöld í þessum umræðum og þó að skriftin sé ekki beinlínis læsileg þá er aðeins farið að glitta í að nú er að koma fram stjórnarandstaða sem er innbyrðis ósamstiga og með ákaflega mótsagnakenndar tillögur.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gagnrýndi það t.d. að ekki glitti nægilega vel í skattalækkanir í fjárlagafrumvarpinu sem fyrir liggur á sama tíma og hann kallaði eftir því að farið yrði í frekari útgjöld til ýmissa málaflokka. Hv. þm. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, talaði um að byggingariðnaðurinn væri of þaninn, það væri með öðrum orðum verið að leggja of mikið af lánsfé, 90% fé kannski, í húsbyggingar í landinu. Hv. þingmaður talaði líka um að nú væri mjög mikilvægt að auka aðhaldið í ríkisfjármálum. Honum gefst tækifæri til þess á fimmtudaginn kemur, þegar fjárlagaumræðan fer fram, að segja okkur frá því hvernig hann vill beita aðhaldinu, hvar hann vill t.d. skera niður. Það liggur fyrir að auka á útgjöld til vegamála, kannski vill hann skera þau niður, eða kannski hækka skatta. Þetta mun allt koma fram á fimmtudaginn kemur í fjárlagaumræðunni ef hv. þingmaður vill vera sjálfum sér samkvæmur og trúverðugur.

Mikið hefur verið rætt um niðurskurð aflaheimilda í þorski og það er eðlilegt. Um það hefur verið talað eins og að það stafaði af einhverri sérstakri meinbægni af minni hálfu að leggja til þennan niðurskurð í þorskinum. Þó eru fyrir því fyllileg rök. Það liggur ýmislegt fyrir í þeim efnum. Nýliðunin hefur ekki verið nægjanleg, við sjáum að þorskstofninn hefur verið að minnka og má nefna það sérstaklega að verðmætasti hluti þorsksins, þ.e. stærsti þorskurinn, hefur verið minni en á undanförnum árum. Um það er í sjálfu sér enginn ágreiningur.

Talað er um að fara hefði mátt hægar í sakirnar. Það er út af fyrir sig sjónarmið sem má alveg hugsa um, það er kannski eitthvað til í því. En þá hefðu menn líka orðið að vera tilbúnir til þess að takast á við þær afleiðingar sem það hefði haft í för með sér. Það er augljóst mál að það hefði að öllum líkindum leitt til þess að orðið hefði að skera frekar niður á næsta ári. Hefðu menn talið það æskilegt? Hvernig halda menn að brugðist hefði verið við í sjávarútveginum við þær aðstæður? Það er alveg augljóst mál hvernig það hefði verið, það hefði verið mjög neikvætt fyrir sjávarútveginn.

Það er nefnilega alveg rétt sem komið hefur fram nú á síðustu vikum, við þær aðstæður sem nú eru reyna menn einmitt að halda í sínar eigin aflaheimildir af því að menn hafa trú á því að þær muni aukast að nýju, það er sú trú á framtíðina sem skiptir máli. Það er nefnilega mjög lítill vandi við svona aðstæður að leika pólitíska lukkuriddara. Það er mjög átakalítið en sæmir þeim sem vilja í sínu pólitíska lífi sitja klofvega á girðingunum út í hið óendanlega.

Mótvægisaðgerðirnar sem ríkisstjórnin hefur boðað eru gerðar vegna þess að við höfum fulla trú á sjávarútveginum í framtíðinni líkt og núna. Mikilvægur hluti aðgerðanna er því fólginn í því að skapa greininni skjól til þess að dafna og varðveita fjölbreytileika sinn. Lækkun veiðigjalds, skuldbreyting Byggðastofnunar, þátttaka fjármálastofnana, stóraukin áhersla á hafrannsóknir, aukið fjármagn til þorskeldis og fleiri aðgerðir í þeim dúr eru settar fram til þess að styðja og styrkja sjávarútveginn sem atvinnugrein til þess að takast á við vandann sem við er að glíma.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að engar þessar mótvægisaðgerðir kæmu þeim til góða sem mest þyrftu á þeim að halda. Er hann þá að segja að ekkert af þessu sé til gagns fyrir íslenskan sjávarútveg og það fólk sem þar starfar? Er hann að tala um að aukið fé til vegamála, aukið fé til fjarskiptamála, aukin menntunartækifæri og ný atvinnutækifæri komi ekki til góða fyrir sjómenn, verkafólk, almenning úti á landsbyggðinni? Það svarar hver þeirri spurningu eins og hann getur og svarið er augljóst.

Talað hefur verið um að 30% niðurskurður á aflaheimildum hafi í för með sér miklar þrengingar fyrir sjávarútveginn í landinu og það er rétt. Hv. þm. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, talaði um að þetta væri sérstök aðför að sjávarbyggðunum og sú mesta. Hann er talsmaður flokks sem lagði til 20% niðurskurð. Hvað kallar hv. þingmaður það þá? Ef 30% er mesta aðförin, hvað er þá 20%? Eða telja menn kannski að 20 þús. tonna meiri þorskur í ár hefði skipt sköpum fyrir fyrirtækin og byggðirnar?

Virðulegi forseti. Íslenskur landbúnaður á mikla framtíð fyrir sér. Hann mun, eins og aðrar atvinnugreinar, þurfa að takast á við breytingar í starfsumhverfi sínu. Það er mikilvægt að slíkar breytingar fari fram sem þróun og skapi greininni ný sóknarfæri líkt og hafa myndast á undanförnum árum. Það er rangt að reyna að slá ryki í augu fólks vegna þeirra breytinga sem verið er að gera á umhverfi í stjórnsýslunni hvað varðar landbúnaðinn. Þær breytingar munu fyrst og fremst hafa það í för með sér að landbúnaður styrkist og eflist eins og til stendur og skrifað er um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.