135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt og ég met það að fjármálaráðherra skuli viðurkenna að hann geti ekki sett sig í þessi spor. Mér finnst það heiðarlegt af honum þó að mér þyki dapurlegt að hann skuli ekki geta það.

Hins vegar get ég frætt fjármálaráðherrann á móti: Ég væri ekki stoltur af að standa hér og segja að ég ætlaði að verja 1,5 milljörðum til nýrra hernaðarútgjalda, til þess að borga erlendum herjum fyrir að vera með heræfingar á íslenskri grund og að það væri hið sérstaka gæluverkefni þessarar ríkisstjórnar.

Frú forseti. Ég er svo fullkomlega hreinskilinn í því að ég teldi að þessum peningum væri betur varið til að hækka laun hjá starfsfólki á sjúkrahúsum, elliheimilum, starfsfólki á leikskólum en að verja peningum til heræfinga á Íslandi. (Gripið fram í.) Já, ég er svo sannarlega á þeirri skoðun, hæstv. ráðherra, og deili alls ekki því viðhorfi þínu að það sé forgangsverkefni að setja 1,5 milljarða í heræfingar og hernaðarumsvif á Íslandi. Þá tek ég leikskólana, sjúkrahúsin, elliheimilin, elli- og örorkulífeyrisþegana fram yfir.