135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:07]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sagt að staða okkar Íslendinga í efnahagsmálum sé öfundsverð. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki sagt að krónan muni lækka á næsta ári. Hann hefur hins vegar metið það svo að krónan sé of hátt skráð. Það er bara allt annað mál hvort hún er of hátt skráð eða hvort hún muni lækka á næsta ári eða ekki. Það eru tveir ólíkir hlutir.

Mér finnst reyndar skjóta svolítið skökku við í málflutningi hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, þingflokksformanns Frjálslynda flokksins, í samanburði við málflutning hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins, sem hafði fyrir hádegishlé mestar áhyggjur af því að þjóðhagsáætlun fjármálaráðuneytisins væri of svartsýn og von væri á meiri virkni í hagkerfinu og meiri fjárfestingum en meginspáin gerði ráð fyrir og þar af leiðandi væru líkur á meiri eftirspurn eftir vinnuafli, minna atvinnuleysi, meiri kaupmáttaraukningu og meiri hagvexti en meginspáin gerði ráð fyrir. Þetta er þvert á það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talar um. Málflutningur þingflokksformannsins og flokksformannsins er hvor í sína áttina.

Hv. þingmaður spurði mig í ræðu sinni hvort ég bæri virðingu fyrir fjárlögunum sem lögum. Ég held að eftir ræður mínar í dag og aðrar ræður mínar á þinginu um langan tíma ætti hv. þingmaður að vita að ég geri það. Hann var með ásakanir um að ég hefði ákveðið útgjöld án heimilda. Mér virðist sem nokkrir aðrir hafi verið með þær ásakanir í umræðunni í dag þannig að ég held að ég verði að ætla mér meiri tíma til að ræða það síðar.