135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:37]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég endurtek að við gerum ekki upp á milli rekstrarforma þegar þau eru komin af hendi ríkisins. Sjálfseignarstofnanir hafa sýnt góðan árangur í rekstri heilbrigðisstofnana og þar á meðal má nefna Reykjalund og mörg öldrunarheimili. En við höfum líka séð að heimili eins og Sóltún, sem er vissulega einkarekið, bætti gæði og, ef ég má sletta, „standard“ í þjónustu hjúkrunarheimila verulega. Þjónustan á Sóltúni er sú þjónusta sem önnur hjúkrunarheimili, bæði hérlendis og erlendis, nota sem fyrirmynd. (Gripið fram í.) Ríkið, heilbrigðisráðuneytið, samdi við eigendur Sóltúns um ákveðið verð og ekki er hægt að bera það saman við aðrar stofnanir (Gripið fram í.) þar sem samningurinn var til 25 ára og ríkið lagði ekki til fjármagn til byggingarinnar eins og við önnur heimili. (Gripið fram í.) Ég skal ræða málin við hv. þingmann hér á eftir, og hef gert það áður, en ekki með hrópum um salinn. (Gripið fram í.)

Varðandi önnur fyrirtæki eða einkaaðila sem hafa verið í heilbrigðisþjónustu má nefna Salahverfið og Orkuhúsið og Art Medica sem er tæknifrjóvgunardeild. Ein leið til þess að meta gæði þjónustu er að spyrja skjólstæðinga. Við höfum séð, bæði í samtölum og í könnunum, að gæði þjónustunnar í Salahverfinu eru metin meiri en á öðrum heilsugæslustöðvum. Mér finnst að Heilsugæslan í Reykjavík, (Gripið fram í.) sem er ríkisrekin, þurfi að svara fyrir það, (Forseti hringir.) þ.e. hvers vegna skjólstæðingar meta hlutina með þessum hætti.