135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:38]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti hæstv. iðnaðarráðherra gefa mjög athyglisverða yfirlýsingu. Hann sagðist því fylgjandi, ef ég heyrði rétt, að fram færi rannsókn og umræða um afleiðingar (Iðnrh.: Ég er ekki hræddur við umræðuna.) (Forseti hringir.) einkavæðingarinnar. Hann er ekki hræddur við það og er þar með að lýsa yfir samþykki við slíkt. Ég vildi fá það upplýst hvort hann væri þá líka tilbúinn að fara að tillögu okkar og stöðva frekari einkavæðingu velferðarþjónustunnar og orkugeirans þar til slík málefnaleg umræða hefur farið fram.

Ég átti svolítið erfitt með að átta mig á málatilbúnaði hæstv. ráðherra varðandi eignarhald á orkulindunum. Hann sagði að þær mættu ekki fara úr almannaeign að meiri hluta. Var það ekki rétt hjá mér? Hann hristir höfuðið. Ég hef greinilega misskilið eitthvað. En hann bað um hjálp. Hæstv. ráðherra bað um hjálp og ég skal líkna, hjálpa hæstv. ráðherra Össuri Skarphéðinssyni. Hver veit nema ég eigi eftir að fara fram á umræðu utan dagskrár um nákvæmlega þetta efni á næstu dögum.