135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrirspurnir til ráðherra skv. 7. mgr. 49. gr. þingskapa.

[13:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Blikur eru á lofti í orkumálum landsmanna og hætta á því að hafin sé vegferð sem getur endað á því að þjóðin missi eignarhald yfir dýrmætustu auðlindum sínum, orkulindunum. Þrátt fyrir yfirlýsingar, bæði úr Stjórnarráðinu og frá sveitarstjórnarmönnum, um að ekki standi til að einkavæða orkulindirnar þá er nákvæmlega það að gerast núna.

Fyrri ríkisstjórn setti þessa hringekju í gang þegar hún ákvað að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja með því skilyrði að aðeins einkaaðilar gætu keypt.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Íslensk orkufyrirtæki í opinberri eigu mega ekki bjóða í eignarhlut íslenska ríkisins.“

Það voru skilmálarnir sem ríkisstjórnin setti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mótmæltu þessu og eftir að ný ríkisstjórn var mynduð voru þau mótmæli ítrekuð. Allt kom fyrir ekki, ríkið seldi og nú komu til sögunnar einkafjárfestar sem keppa að því að sölsa undir sig jarðhitasvæðin á Suðurnesjum. Reykjanes Peninsula Geothermal Areas heitir það á ensku á heimasíðu Reykjavík Energy Invest þar sem félagið telur upp eigur sínar. Þar er líka vísað í Hellisheiðina og þar er líka vísað í Nesjavelli. Reyndar er margt mótsagnakennt og misvísandi í fullyrðingum sem fram koma í yfirlýsingum sem gefnar eru út og á heimasíðum orkufyrirtækjanna. Þannig segir í fréttatilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur þegar hún greinir frá samruna fyrirtækjanna í Reykjavík Energy Invest að fyrirtækið eigi 48% hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Á heimasíðu Hitaveitu Suðurnesja segir hins vegar að Orkuveita Reykjavíkur eigi rúm 16% og sé eignarhlutur hins einkavædda fyrirtækis minni sem þessu nemur. Maður spyr sig hvað búi að baki og hver innstæðan sé að baki yfirlýsingum borgarstjórans í Reykjavík, að ekki standi til að einkavæða auðlindirnar.

Með leyfi forseta beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra hvernig ríkisstjórnin hyggist koma að þessu máli sem hún beinlínis á sök á eins og ég hef hér rakið.