135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

1. fsp.

[13:39]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Heyrði þingheimur hvað hæstv. forsætisráðherra sagði? (Iðnrh.: Já.) Að orkulindirnar, auðlindirnar, ættu ekki endilega allar (Gripið fram í.) að vera í höndum einkaaðila. Skildi ég það rétt? (Gripið fram í.) Var hæstv. forsætisráðherra að taka undir með hæstv. iðnaðarráðherra að setja beri löggjöf sem tryggi eignarhald íslensku þjóðarinnar á orkulindunum að öllu leyti? Mér hefur sýnst að sumir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal hæstv. menntamálaráðherra, dragi lappirnar í þeim efnum.

En það eru aðrar hliðar á þessum málum líka sem snúa að ríkisstjórninni. Áhöld eru um það hvort sveitarstjórnarlög hafi verið brotin. Menn hafa nefnt til sögunnar rannsóknarskyldu stjórnsýsluréttar og að ekki hafi verið farið eftir því sem kveðið er á um í lögum um sveitarfélög, að allar meiri háttar ákvarðanir beri að ræða á opinskáan og lýðræðislegan hátt. Það er þá spurning hvernig hæstv. félagsmálaráðherra og ríkisstjórnin hyggst axla ábyrgð í því efni.