135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrirhugaður flutningsstyrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs.

[14:25]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Herra forseti. Ég skal játa að mér brá ansi mikið þegar ég heyrði að borga ætti um 200 þús. kr. til að hjálpa fólki til að flytja sig á milli landshluta. Ég fór að skoða þetta mál og fylgjast með því hvað væri að gerast og í fyrsta lagi hvort ríkisstjórnin hefði komið fram með slíkar tillögur. Það kemur í ljós að það er Atvinnuleysistryggingasjóður, með aðilum vinnumarkaðarins, sem er að útfæra reglugerð sem m.a. var samþykkt af málshefjanda, hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, í júní sl. Þetta er sett fram sem útfærsla á þeirri reglugerð.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur vakið athygli á því að málið sé ekki einu sinni komið á borð hjá ráðherra og það væri nær fyrir okkur, þingmenn úr Norðvesturkjördæmi, þar sem augljóst er að við þurfum að vinna vel saman að því að snúa við þróuninni við varðandi byggðina í landinu, í stað þess að hrópa hátt og láta eins og hér sé allt að fara til fjandans og ríkisstjórnin að reyna að kollsteypa landinu, að snúa bökum saman og reyna að sinna því að bjarga málunum í okkar kjördæmi. Upphrópanir eins og ætlunin sé að bera fé á fólk til að flytja af landsbyggðinni eða að kalla þetta nýjar tillögur ríkisstjórnarinnar eru eiginlega ekki svaraverðar. Ég held að menn ættu að snúa sér að því stóra verkefni að standa við það sem er í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar, að landið verði eitt atvinnusvæði að fólkið fái að búa á landsbyggðinni.

Ég vil heyra frá þeim þingmönnum sem hér hafa talað hvort þeir leggi til að flutningsstyrkurinn, sem er eldgamalt ákvæði, og þingmál um það endurflutt sl. ár og samþykkt af viðkomandi aðilum, verði fellt úr lögum.