135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[14:51]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stendur allur að og ég ætla að hefja mál mitt með því að lesa efni sjálfrar tillögunnar og fara síðan nokkrum orðum um rökstuðning sem henni fylgir.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta :

„Alþingi ályktar að gerð verði ítarleg rannsókn á áhrifum og afleiðingum markaðsvæðingar samfélagsþjónustunnar. Könnuð verði reynslan af markaðs- og einkavæðingu viðfangsefna ríkis og sveitarfélaga hér á landi og einnig verði dregnar saman og hafðar til hliðsjónar helstu niðurstöður rannsókna á slíkum breytingum erlendis. Sérstök verkefnisstjórn hafi yfirumsjón með rannsókninni, skipuð einum fulltrúa frá hverjum þingflokki, sem og einum fulltrúa frá hverjum um sig, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og BSRB, en formann hópsins skipi forsætisráðherra án tilnefningar. Forsætisráðuneytið skal aðstoða verkefnisstjórnina og leggja henni til starfsaðstöðu, en stjórninni er einnig heimilt að ráða sér starfsmenn og kaupa utanaðkomandi sérfræðiþjónustu eftir þörfum. Kostnaður greiðist úr ríkissjóði. Verkefnisstjórn skal skila niðurstöðum sínum í formi skýrslu til Alþingis er þar komi svo til umræðu. Verklok skulu vera fyrir 1. október 2008. Fallið skuli frá öllum áformum um frekari einkavæðingu og einkarekstur þar til niðurstöður skýrslunnar liggi fyrir.“

Svohljóðandi er þessi tillaga sem við berum fram sameiginlega, þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég vek athygli á þessari lokasetningu: „Fallið skuli frá öllum áformum um frekari einkavæðingu og einkarekstur þar til niðurstöður skýrslunnar liggi fyrir.“

Ég spyr: Er til of mikils mælst að þegar ráðist er í grundvallarbreytingar á samfélaginu fari fram ítarleg málefnaleg umræða þar sem leitað verði í smiðju þeirra sem hafa ráðist í samsvarandi breytingar á erlendri grundu? Við þekkjum það öll að víða um heim hafa markaðs- og einkavæðingaröfl knúið fram umfangsmiklar breytingar á almannaþjónustu og víða hefur grundvallarstoðum velferðarsamfélagsins verið breytt. Í sumum tilvikum hefur verið þverpólitísk samstaða um breytingar af þessu tagi, um einkavæðingu hér á landi. Ég nefni sem dæmi að þegar SR-mjöl var einkavætt var ekki um það ágreiningur í sjálfu sér. Menn greindi á um hvernig staðið var að sölunni og Ríkisendurskoðun, eins og marga kann að reka minni til, reiddi fram skýrslu þar sem fram kom að þar var ekki allt sem skyldi. Ég nefni Gutenberg-prentsmiðjuna, hún var seld og enginn ágreiningur um það. Áburðarverksmiðjan var seld. Aftur var ekki ágreiningur um söluna í sjálfu sér, heldur hitt hvernig að málunum var staðið. Það er allt önnur saga.

Þegar hins vegar kemur að einkavæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar, innan velferðarþjónustunnar, fer því fjarri að samstaða hafi verið um slík efni og við erum núna að verða vitni að einkavæðingu í orkugeiranum og á vatninu. Það stendur til að einkavæða vatnið. Það er verið að búa í haginn fyrir slíkt með hinum illræmdu vatnalögum sem vonandi dagar uppi sem frumvarp sem aldrei átti að verða til.

Í upphafi þingfundar í dag var rætt um einkavæðingu eða þá hættu sem við stöndum frammi fyrir núna í orkugeiranum. Nái áform borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík fram að ganga er ljóst að orkuauðlindir á Suðurnesjum verða færðar í einkaeign. Þetta er staðreynd. Við höfum fylgst með fréttum undanfarna daga um þetta efni. Þar segir borgarstjórinn í Reykjavík, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, að ekki standi til að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur og hæstv. forsætisráðherra ítrekaði þá afstöðu í sínu máli hér fyrr í dag. En hann sagði ekkert um orkuauðlindirnar á Suðurnesjum vegna þess að þar er stjórn Orkuveitunnar og stjórnarmeirihlutinn í Reykjavík að selja hlut sinn í einmitt orkuauðlindunum á Suðurnesjum. Um það átti umræðan hér fyrr í dag að standa en hæstv. forsætisráðherra svaraði engu og hef ég nú sett inn ósk um utandagskrárumræðu um það efni sem vonandi fer fram á allra næstu dögum.

Hæstv. forsætisráðherra tók reyndar allsérkennilega til orða þegar hann tjáði sig um einkavæðingu orkuauðlindanna. Hann sagði, ef ég man rétt, að orkuauðlindirnar yrðu ekki endilega allar andlag einkavæðingar. (Gripið fram í: … aldrei allar.) Ég náði ekki alveg hvað hæstv. forsætisráðherra var að fara, mér heyrðist hann hafa sagt að þær yrðu ekki endilega allar einkavæddar. (Gripið fram í: Andlag einkavæðingar.) Andlag einkavæðingar, en þetta þýðir nákvæmlega það sama en segir okkur eitt, hvernig reynt er að drepa þessari umræðu á dreif með aulalegum yfirlýsingum af þessu tagi, með aulalegum og misvísandi yfirlýsingum af þessu tagi. Það sem hæstv. forsætisráðherra var að segja var að í hans huga stæði ekki endilega til að einkavæða allar orkuauðlindir landsmanna. Það stendur ekki endilega til, það á ekki endilega að einkavæða allar orkuauðlindir landsmanna. Þetta eru mjög alvarlegar hótanir sem koma úr Stjórnarráðinu, um að það eigi að ráðast í umfangsmikla einkavæðingu í orkugeiranum, enda er þetta í fullkomnu samræmi við það sem Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði á landsþingi sínu í aðdraganda síðustu kosninga og var síðan reynt að sveipa dulúðarhjúp vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir því að þetta mundi ekki falla í kramið hjá kjósendum og væri ekki líklegt til að verða Sjálfstæðisflokknum til framdráttar í kosningabaráttunni.

Aftur að því þingmáli sem við berum hér fram í sameiningu, þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég vil minna á að við höfum áður sett fram tillögu svipaðs eðlis. Það gerðum við á Alþingi árið 1999 þegar við lögðum til að sett yrði á laggirnar nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem tæki til skoðunar — og hér vitna ég, með leyfi forseta, í þingsályktunartillöguna: „hlutverk og verkaskiptingu ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila“.

Þessi tillaga var samþykkt að efni til en kom aldrei til framkvæmda. Ríkisstjórnin lét aldrei að vilja þingsins hvað þetta snertir. Í greinargerð með þeirri tillögu er, sem nú er gert, vísað í þær breytingar sem verið er að gera og breytingar sem einkavæðingin og markaðsvæðing samfélagsþjónustunnar hefur í för með sér og hvatt til þess að fram fari málefnaleg umræða áður en ráðist verður í breytingarnar.

Annar stjórnarflokkurinn hefur talað mjög mikið um svokölluð umræðustjórnmál. Ég hef skilið það svo að það snúi einmitt að umræðu um grundvallarefni, að áður en ráðist verði í breytingar ræði menn á hvaða forsendum þær skuli framkvæmdar. Það er það sem við erum að leggja til.

Í þingskjalinu er vísað í rannsóknarskýrslur víða að. Gerðar hafa verið ítarlegar rannsóknir á afleiðingum markaðsvæðingar í Nýja-Sjálandi, í Bretlandi, í Evrópu almennt, þegar raforkugeirinn og vatnið er annars vegar, og reyndar einnig í Bandaríkjunum. Við hvetjum til þess að menn dragi að sér allan þennan efnivið og skoði til hlítar áður en ráðist verður í breytingar. Og ég minni á eitt: Sönnunarskyldan hlýtur að hvíla á þeim sem stýrir för, þeim sem ætlar að breyta. Hann hlýtur að þurfa að gera skýra grein fyrir ástæðum þess að ráðast beri í breytingarnar. Einhvern tíma var sagt að ef menn ætluðu að gera við eitthvað þyrftu þeir fyrst að vita hvað væri bilað. Þú ræðst ekki í viðgerðir áður en þú veist hvað er að. Á hverju ætlarðu að ráða bót? Hverju ætlarðu að ná fram með breytingunum? Og við sættum okkur ekki við innantómt orðagjálfur sem iðulega heyrist úr frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins, að það eigi bara að breyta „af því bara“. Og það er svolítið sérstakt, þegar maður hugleiðir það, að það sama hefur hent frjálshyggjuvæng Sjálfstæðisflokksins og áður einkenndi harða sósíalista á öndverðri 20. öldinni sem létu stjórnast af hugmyndafræðinni einni. Þeir sögðu: Dæmið okkur ekki af verkum okkar, við erum að búa til nýjan heim og þangað til hann verður til skulið þið sýna okkur þolinmæði. Dæmið okkur þegar við höfum skapað nýja veröld. Þetta voru gömlu sósíalistarnir og kommúnistarnir. Þá komu miðjumennirnir og hægri mennirnir, sem vildu fara rólega í sakirnar og skoða reynsluna, hvernig til hefði tekist, pragmatistarnir, en það var reynt að slá þá út af laginu.

Hvað er að gerast núna? Nú erum það við sem stöndum til vinstri í stjórnmálum sem viljum skírskota til reynslunnar, skoða hvað hún hefur leitt í ljós. Hverju svarar þá frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins? Hún svarar þessu til: Við erum að búa til nýjan heim. Við erum að búa til nýja veröld. Dæmið okkur ekki fyrr en markaðurinn er raunverulega farinn að virka. Þá skuluð þið fella dóma ykkar. Og þegar hver rannsóknarskýrslan á fætur annarri er reidd fram í Brussel, um afleiðingar af einkavæðingu orkugeirans, um afleiðingar af einkavæðingu á vatninu og um afleiðingar af einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, segja menn nákvæmlega þetta: Við erum að búa til nýja veröld. Við erum að búa til veröld markaðshyggjunnar og þar til markaðurinn er farinn að virka skuluð þið ekki dæma okkur. En við erum búin að fá nóg af þessu og samfélögin eru búin að fá nóg af þessu og ég spyr: Þorir ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn ekki að setjast yfir þessi mál og láta reynsluna tala. Það er það eina sem við óskum eftir og út á það gengur þetta þingmál okkar, að við drögum til okkar gögn um reynslu þjóðanna af einkaframkvæmd í Bretlandi, af einkavæðingu og markaðsvæðingu samfélagsþjónustunnar í Nýja-Sjálandi og annars staðar í heiminum. Að við leggjum í þetta þverpólitíska vinnu með aðkomu allra stjórnmálaflokka, samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar. En þar til niðurstöður liggja fyrir skulum við setja stopp á allar grundvallarbreytingar á samfélaginu.

Við þekkjum öll hótanir Sjálfstæðisflokksins um að ráðast til atlögu gegn heilbrigðiskerfinu. Það var óhugnanlegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra ekki alls fyrir löngu þegar hann sagði að nú væru þeir búnir að finna samverkamenn sem væru til í tuskið. Þeir eru til í að vera með okkur í þessu, sagði hann um Samfylkinguna þegar hann boðaði að nú yrði heldur betur sveigt til hægri þegar heilbrigðiskerfið væri annars vegar og þegar hægt væri að ráðast til atlögu við orkugeirann í samræmi við yfirlýsingar og ályktanir landsfunda Sjálfstæðisflokksins. Það er þetta sem vakir fyrir þessum flokki. Út á þetta gengur hann. En við vitum það líka að innan Sjálfstæðisflokksins og innan allra stjórnmálaflokka á Íslandi eru félagsleg öfl sem vilja hag þjóðarinnar og samfélagsins sem bestan og við erum að biðla til þeirra afla auk þess sem við erum að biðja um sanngirni og samvinnu.