135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:47]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Aftur að söluhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Ástæðan fyrir því að ákveðið var að setja takmarkanir á hverjir gætu keypt eða boðið í þennan hlut var sú að menn vildu koma í veg fyrir aukna samþjöppun á raforkumarkaði. Talið var óheppilegt að annaðhvort Orkuveita Reykjavíkur eða Landsvirkjun gætu keypt þennan hlut. Það var óheppilegt fyrir margra hluta sakir, m.a. vegna þess að slíkum hlut mundi fylgja stjórnarsæti í Hitaveitu Suðurnesja sem aftur er óeðlilegt á markaði þar sem á að kalla fram samkeppni í sölu, að eitt fyrirtæki eigi stjórnarsæti í öðru fyrirtæki og geti þar með nærri því gert viðkomandi stjórn óvirka.

Hitt er líka að það yrði að heita undarleg einkavæðing ef ríkið hefði selt eignarhlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja og Landsvirkjun hefði keypt. Það hefði verið nokkuð öfugsnúið og gegn þeim markmiðum sem sett voru með sölu hlutarins.

Aðalatriðið hvað varðar stöðu sveitarfélaganna, svo ég ítreki það enn og aftur, var að þá lá fyrir að sveitarfélögin höfðu forkaupsrétt í þessu og þess var virkilega gætt með mjög grandvörum og gerhyglum hætti að tryggt væri að sveitarfélögunum væri algjörlega og fullkomlega ljós réttur sinn í málinu, þau hefðu alla þá fyrirvara og allan þann tíma sem þyrfti til þess að meta það hvort þau vildu neyta forkaupsréttar síns enda kom það síðan í ljós að öll þeirra gerðu það. Ég tel því að það hafi verið óheppilegt þegar Orkuveita Reykjavíkur fór síðan í fyrirtækið, ég harma það. Ég held að það upplegg sem lagt var upp með, ef því hefði verið fylgt, hefði verið mun happasælla, betra og drýgra fyrir samfélagið en sú leið sem því miður var farin. (Gripið fram í.) Þarna tel ég að mönnum hafi orðið á og ég gerði við það athugasemdir á sínum tíma þegar Orkuveita Reykjavíkur ásældist Hitaveitu Suðurnesja sem var illu heilli og hefði aldrei átt að verða.