135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:21]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Ég tek fram að ég held að við séum sammála um mjög margt sem snýr að samfélagsþjónustunni, ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem hér talaði síðastur en hann gagnrýndi jafnframt nokkuð nálgun okkar til málsins og taldi að við beindum ekki sjónum okkar að öllu leyti í rétta átt. Það gæti ekki skipt máli hvort það væru starfsmenn hins opinbera, ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga, sem sinntu verkefnum á vegum samfélagsins eða starfsmenn einkafyrirtækja. Ég held að málið snúist ekki um þetta, heldur hvaða lögmál eru virkjuð, hvaða markmiðum tiltekin rekstrarform hlíta eða starfa samkvæmt.

Við skulum taka dæmi. Landspítalinn er á vegum ríkisins og er opinber stofnun að öllu leyti. Það er Hrafnista ekki, það er SÍBS ekki. Þær stofnanir eru sjálfseignarstofnanir sem eru sprottnar upp úr samtökum sjúklinga, samtökum verkalýðshreyfingar eins og Hrafnista, en þessar stofnanir og þessi mismunandi rekstrarform eiga eitt sameiginlegt, samfélagsleg markmið eru höfð að leiðarljósi en ekki gróðamarkmið.

Hvernig skyldi standa á því að Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að hið einkarekna fyrirtæki öldrunarstofnunin Sóltún væri dýrari í rekstri en sjálfseignarstofnanir eða opinberar stofnanir, hún væri skattborgaranum kostnaðarsamari en hinar stofnanirnar? Hver var ástæðan fyrir þessu? Jú, það kom fram í álitsgerð Ríkisendurskoðunar að eðlilegt væri — ég held að ég muni orðalagið rétt — að eigendur þessa fyrirtækis greiddu sjálfum sér arð, til þess fjárfestu þeir í þessari starfsemi. Það er um þetta sem málið snýst, ekki um hitt hvort starfsmennirnir heita opinberir starfsmenn eða ekki, heldur hvaða lögmál eru virkjuð í samfélagsþjónustunni.

Ég er alveg sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um að við eigum að horfa á hinar samfélagslegu afleiðingar þeirra kerfisbreytinga sem ráðist hefur verið í og skoða málin í víðu samhengi. En ég vek athygli á því sem fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni hvað þetta snertir, við tíundum þetta nefnilega nákvæmlega. Við nefnum sem dæmi um spurningar sem vert væri að spyrja: Hvernig hafa breytingarnar reynst almenningi? Svo er gerð ítarleg grein fyrir því hvað hér er um að tefla. Ég nefni sem dæmi þó að ekki sé vikið að því í greinargerðinni: Hvernig hefur það reynst almenningi að markaðsvæða raforkukerfið? Hvernig hefur það reynst almenningi í Evrópu þar sem vatnsveitur hafa verið einkavæddar? Það liggja fyrir um þetta skýrar niðurstöður í rannsóknarskýrslum sem m.a. hafa verið unnar á vegum Evrópusambandsins. Við erum að hvetja til þess að við öflum þessara gagna og rýnum í þau.

Við þurfum ekkert að finna upp hjólið á öllum sviðum, það er til mikið af rannsóknum um einkaframkvæmd í velferðarþjónustunni á Bretlandi. Því fer fjarri að skiptingin sé hægri/vinstri í pólitík um afstöðu til þessara breytinga, Verkamannaflokkurinn undir stjórn Tonys Blairs hefur gengið miklu harðar fram en margir íhaldsmenn hafa viljað. Þegar svo var komið að einkaframkvæmdarverkefni voru farin að ganga kaupum og sölum á markaði voru það íhaldsmenn, þingmenn Íhaldsflokksins, sem gagnrýndu það harðast. Ég vísa í rannsóknarskýrslur sem gerðar hafa verið um þetta efni, umfjöllun í breska ríkisútvarpinu BBC sem vísað er til hér og slóðir gefnar í greinargerð með þingmálinu. Þetta er ein spurningin sem við höfum spurt: Hvað þýðir það að virkja markaðslögmálin innan heilbrigðisþjónustunnar og innan annarra geira?

Hv. þingmaður, fulltrúi Samfylkingarinnar við þessa umræðu, sagði að innan íslenska heilbrigðiskerfisins væri ekkert einhlítt í þessu efni. Við værum með einkarekstur á ýmsum sviðum, nefndi tannlækningar, nefndi aðra þætti einnig. Þetta er alveg rétt, við höfum verið með blöndu, eins konar kokteil sem hefur verið sæmileg sátt um. Spurningin er: Hvert eigum við að hreyfa okkur í því efni? Slagurinn, átökin undanfarin ár á milli stjórnvalda, Tryggingastofnunar, heilbrigðisráðuneytis og sérfræðilækna svo dæmi sé tekið, er um hve langt eigi að ganga í að virkja markaðslögmálin. Þar hefur verið gengið lengra gagnvart einni stétt, tannlæknum, en öðrum stéttum lækna vegna þess að þeir hafa haft frelsi um gjaldskrána jafnvel þótt þeir hafi fengið greiðslur frá Tryggingastofnun. Hið sama gildir ekki um marga aðra sérfræðilækna. Þeim hefur verið gert að hlíta þeim verðskrám sem almannatryggingar hafa sett. Þarna er verið að reisa skorður og setja bönd á markaðslögmálin. Spurningin er: Hversu langt eigum við að ganga í þessum efnum? Það er því alveg rétt sem hér hefur verið sagt, það eru til mismunandi rekstrarform en ágreiningurinn hefur snúist um hve langt við eigum að ganga í markaðsvæðingaráttina. Þetta eru hlutir sem við höfum kallað eftir umræðu um.

Við viljum spyrja hvernig breytingar í markaðsvæðingarátt hafa reynst þeim sem greiða fyrir þjónustuna. Hefur hún orðið dýrari eða ódýrari fyrir einstaka greiðendur og samfélagið í heild sinni, hvort sem það eru einstaklingarnir eða samfélagið? Núna er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að taka upp þá stefnu sem hann hafði ekki fyrir 1998 þegar hann lagði áherslu á að við einkavæðingu og einkaframkvæmd ætti að láta einstaklinginn, notandann, greiða sem mest — það kom fram í skýrslu frá fjármálaráðuneytinu á þeim tíma — nú segir hann: Samfélagið á þá að borga. Við viljum einkarekstur — og Samfylkingin hefur tekið undir þessi sjónarmið — en samfélagið á að borga, skattgreiðandinn á að borga. En bíðum við, borga hvað, endalaust? Ef ég stofna klíník eða háskóla á ég þá kröfu á hendur skattgreiðendum samfélagsins alveg sama hvað ég geri? Eru engin takmörk fyrir því hve miklir peningar eru til og hver á að ráða þá um framvinduna? Á bara að vera sjálftaka þessara stétta? Á að vera sjálftaka stofnana sem settar eru á laggirnar? Nei, að sjálfsögðu þurfum við að hafa einhvern hemil á þessu. Þetta þarf að ræða og um það hafa þessi átök snúist. Markaðssinnarnir hafa viljað láta samfélagið fjármagna sig, þeir eru himinlifandi yfir þessari stefnubreytingu Sjálfstæðisflokksins, en þeir vilja líka fá að ráða sér sjálfir um verðlagningu og annað eins og tannlæknarnir hafa gert. Þá hefur það gerst að það hefur færst í sundur, annars vegar sú greiðsla sem kemur frá samfélaginu, almannatryggingum, og það sem notandinn, sjúklingurinn, greiðir fyrir hins vegar. Þetta eru hlutir sem við þurfum að taka afstöðu til.

Ég held því ekki fram að þetta sé einhver einföld umræða sem verði afgreidd í einum pakka. Að sjálfsögðu getum við greint hana í sundur í einstaka liði og tekið einstaka þætti til skoðunar, að sjálfsögðu eigum við að gera það. Við hvetjum einfaldlega til þess að umræða fari fram því að í allt of mörgum tilvikum hefur verið ráðist í breytingar umræðulaust eða án teljandi umræðu. Þar held ég að við hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson höfum æðioft verið sammála. Við höfum verið ósammála um ýmsa þætti en um þetta atriði höfum við þó verið sammála, við viljum láta fara fram opna og gagnsæja umræðu um þessi mál.

Síðan höfum við spurt: Hvernig hafa breytingar af þessu tagi reynst þeim sem veita þjónustuna? Aftur er ekkert einhlítt svar, það er ekkert einhlítt svar við því. Einkavæðing velferðarþjónustunnar hefur reynst mörgum mjög vel, mörgum starfsmönnum alveg prýðilega, öðrum illa. Ég held að skiptingin þarna sé nokkuð tekjutengd. Því hærri tekjur, því meira sjálfræði sem maður hefur sjálfur, því betur hefur hún reynst. Því lægri tekjur, því verr. Ég vísa t.d. í einkavæðingu á ræstingarþjónustu á sjúkrahúsum. Hún hefur ekki verið sérstaklega hagfelld þeim sem veita þá þjónustu, alls ekki. Ég get reitt fram mörg dæmi um það. Sama er í skólunum. Einkavæðing á ræstingarþjónustunni í skólunum hefur ekki reynst starfsfólkinu vel. En þetta þurfum við að kanna og fara í saumana á og það er það sem þetta mál gengur út á. Ef það eru einhverjir þættir sem er erfitt að ná utan um þurfum við að skilgreina þá og hvað það er sem við getum sameinast um.

Síðan varðandi nokkuð sem hér kom fram við umræðuna, ég held að það hafi verið frá Samfylkingunni, þar sem málið var afgreitt með þessum hætti — afgreitt er kannski ekki sanngjarnt að segja því að reynt var að velta upp ýmsum hliðum á málinu en engu að síður var spurt hvort við værum ánægð með heilbrigðisþjónustuna, hvort þetta kerfi væri óskaplega gott á Íslandi og hvort við ættum ekki að vinda okkur í að breyta því af þeim sökum, það svona lá í hugsuninni. Þetta heyrum við iðulega. Við heyrum þetta iðulega um skólana og aðra þætti samfélagsþjónustunnar: Er þetta nógu gott, erum við nógu ánægð, eigum við ekki að breyta?

Þá vil ég minna á ljótan leik sem æðioft hefur verið leikinn, að svelta stofnanir til einkavæðingar. Það er gert nákvæmlega svona, það er skorið niður nógu lengi og svo er spurt: Eruð þið ánægð með þessa þjónustu? Og til starfsfólksins: Eruð þið ánægð með kaupið ykkar og kjörin? Eigum við ekki bara að vinda okkur í einkavæðinguna? Þetta var hugsunin sem við fengum að heyra hér áðan. Þetta er ekki sanngjarnt, þetta kalla ég að svelta menn til hlýðni. Þetta er aðferð sem var úthugsuð á Nýja-Sjálandi á sínum tíma sem varð eins konar tilraunastofa fyrir frjálshyggjumarkaðsöflin og reyndist þjóðinni afskaplega dýrkeypt en þetta var leiðin sem var farin, að svelta þessar samfélagsstofnanir til einkavæðingar. Þessi sami leikur hefur verið leikinn gagnvart starfsfólkinu. Því miður hafa verið nokkur dæmi um það innan heilbrigðisþjónustunnar að farið er að ráða fólk á verktakakjörum. Eflaust eru þau kjör í einhverjum tilvikum betri en í þeim tilvikum sem ég hef kynnt mér, haft aðstöðu til að kynna mér, hafa þau verið lakari en samningar stéttarfélaga kveða á um.

Þar er um að ræða starfsfólk sem var ráðið á tímakaupi sem var heldur hærra en stéttarfélagsbundið fólk hafði. Svo bara leið tíminn, fólkið fékk ekki umsamdar kjarabætur eins og starfsmenn í stéttarfélögunum fengu og síðan kom á daginn þegar viðkomandi veiktist að það var enginn veikindaréttur. Viðkomandi var sagt að þetta væri bara allt inni í kaupinu. Þetta er leikur sem farið er að leika. Mér skilst að ríkisspítalarnir séu að reyna að hamla gegn þessu og er það vel en þetta eru ljótar hliðar á markaðsvæðingu velferðarþjónustunnar sem ég held að væri mjög hollt að taka til ítarlegrar skoðunar. Þetta er að sjálfsögðu bara ein hliðin en ég vísa mönnum á þingmálið, (Forseti hringir.) á greinargerðina sem því fylgir, en þar setjum við fram rök og vísum í skýrslur og álitsgerðir sem fram hafa verið reiddar.