135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

staða íslenskrar tungu.

77. mál
[14:12]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að halda hér hlut íslenskunnar á lofti. Brýnt er að taka hana til umfjöllunar hér og annars staðar í samfélaginu ekki síst í ljósi umræðunnar sem verið hefur á undanförnum mánuðum og missirum og þess misskilnings sem jafnvel hefur gætt um málið sem notað er í landinu og stöðu þess.

Hins vegar er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni að þetta efni var til umfjöllunar hér á þingi vorið 2004, flutt af fulltrúum úr öllum stjórnmálaflokkunum. Samþykkt var að vísa stöðu íslenskunnar til meðferðar í ríkisstjórninni. Vegna þess að núna er liðinn þessi tími þaðan í frá vildi ég nota þetta tækifæri og inna hæstv. menntamálaráðherra eftir því hvaða umfjöllun sú þingsályktun hlaut í ríkisstjórn og hvaða afgreiðslu málið fékk þar til þess að þingið sé upplýst um hvernig sá vilji hefur speglast í (Forseti hringir.) meðferð ríkisstjórnarinnar.