135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[15:23]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Ég vil benda hv. þingmanni, og þeim sem hér eru, á að ég kom upp vegna þess að eftir því var kallað af hv. þingmanni. Ég veit ekki hversu löng snúran er hjá honum í þessum efnum. Hann segir að menn hafi verið að lofa upp í ermina á sér.

Virðulegi forseti. Það stendur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar — ég bið hv. þingmann að hlusta vel þannig að hann geti hætt að fara með rangt mál — að nemendur í framhaldsskólum skuli fá stuðning til kaupa á námsgögnum.

Þarna er verið að ganga lengra en kosningaloforð Samfylkingarinnar gengu út á en þau náðu eingöngu til skólabóka. Þarna er verið að ganga lengra og ég vona að hv. þingmaður fari loksins að ná því að þetta er í stjórnarsáttmálanum og fari að segja satt og rétt frá í þessum efnum.