135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

einkavæðing orkufyrirtækja.

[10:37]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Þetta er afskaplega einkennilegur málflutningur hjá hv. þingmanni þegar hann leitar upphafs á þeim málum sem hafa verið í fjölmiðlum að undanförnu í sölu ríkisins á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja. Áður en sú sala fór fram átti ríkið u.þ.b. 15% í fyrirtækinu og sveitarfélög 85% þannig að það getur varla verið um það að ræða að þar hafi farið fram einkavæðing þegar sá hlutur var seldur. Af því að hann nefndi sérstaklega að það hefði verið skilyrt að sá hlutur yrði ekki seldur opinberum aðilum var það ekki alveg þannig, heldur yrði hann ekki seldur opinberu orkufyrirtækjunum, hvorki Landsvirkjun né Orkuveitu Reykjavíkur. Það var gert út frá samkeppnissjónarmiðum og eftir samráð við Samkeppniseftirlitið til að gæta að því að ekki yrði um of mikinn samruna að ræða á fyrirtækjum á markaði. Þess vegna hafa margir reyndar velt fyrir sér hvers vegna Samkeppniseftirlitið gerði ekki athugasemd við þau viðskipti sem síðan sigldu í kjölfarið þegar Orkuveita Reykjavíkur keypti stóran hlut í Hitaveitu Suðurnesja af öðrum sveitarfélögum. Þau viðskipti sem þarna hafa farið fram hafa að stærri hluta til verið af hálfu þeirra aðila sem áður voru þá sameigendur ríkisins í félaginu og seldu til annarra sveitarfélaga eða þann hluta sem þeir aðilar seldu einkaaðilum.

Það sem er hins vegar athyglisverðast í þessu máli er að verðmæti orkufyrirtækjanna hafa komið miklu skýrar í ljós þannig að við vitum miklu betur hvaða verðmæti við höfum í höndunum og þar af leiðandi hvernig við getum ráðstafað þeim í framtíðinni þjóðinni til hagsbóta.