135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

einkavæðing orkufyrirtækja.

[10:51]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég tel ekkert óeðlilegt að stjórnarandstaðan taki þetta mál upp í þessum sölum. Hins vegar er það svolítið óeðlilegt að það skuli vera hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem gerir það í ljósi þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur þegar beðið um utandagskrárumræðu um þetta mál.

Ég skal hins vegar svara hv. þingmanni algerlega skýrt fyrir mína parta. Ég hef lýst því yfir margsinnis á síðustu dögum að ég sé með frumvarp í smíðum sem kemur ákveðinni reglu á orkumarkaðinn. Það eru þrír meginþættir sem ég vinn eftir. Í fyrsta lagi að skilja á milli þess sem nú er að lögum samkeppnisrekstur og hins vegar sérleyfisþátturinn.

Í öðru lagi að sérleyfisþátturinn eða það sem býr núna við einokun lögbundna eða náttúrulega, dreifing á heitu vatni, köldu vatni, rafmagni og fráveitur, verði að meiri hluta í félagslegri eigu. Fordæmi fyrir því sæki ég í vatnsveitulögin eins og þau eru í dag.

Í þriðja lagi, og það svarar kannski spurningu hv. þingmanns, þá er gert ráð fyrir því að þær orkulindir sem í dag eru í samfélagslegri forsjá verði það áfram. Staðan í dag er sú að meginhluti þeirra virkjuðu linda í vatnsafli og jarðgufu sem Íslendingar eiga í dag er í samfélagslegri forsjá og reyndar líka það sem óvirkjað er. Þá gæti hv. þingmaður spurt hvort einhver ágreiningur væri um þetta efni milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Ég vísa þá hv. þingmanni t.d. í grein hv. þm. Illuga Gunnarssonar í Fréttablaðinu um síðustu helgi þar sem tekið er undir meginpartinn af því sem ég hef hér að segja. Ég skildi heldur ekki orð hæstv. forsætisráðherra í gær með þeim hætti sem hv. þingmaður skildi. En allt um það.

Mig langar hins vegar aðeins að koma að þætti Framsóknarflokksins. Það er í hans höndum núna hvort þessi hlutur í Hitaveitu Suðurnesja verður einkavæddur. Ef hann felst á það hjá Reykjavíkurborg að selja hlutinn í REI gæti það orðið að veruleika.