135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[11:41]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru miklir útúrsnúningar hjá hæstv. fjármálaráðherra og veldur mér áhyggjum að hann skuli ekki gera sér grein fyrir þeim veikleika sem þarna er að baki. Að ætla að fara að snúa því upp á starfsfólkið er lélegt hjá ráðherranum. Ég hef aldrei minnst á starfsfólkið, ég hef kallað til ábyrgðar ráðherrans sjálfs og hann verður að gjöra svo vel að axla hana en ekki vera að setja hana á starfsfólk sitt. Það finnst mér ekki stórmannlegt af hæstv. ráðherra.

Það er vandamál að grunnurinn er ekki nógu ábyggilegur. Ég hef lagt áherslu á að stofnuð yrði efnahagsskrifstofa þingsins. Við höfðum Þjóðhagsstofnun og hún safnaði gögnum sem var unnið eftir. Auðvitað hefur margt breyst síðan. Var það ekki hæstv. forsætisráðherra og ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem í einhverju geðvonskukasti lagði Þjóðhagsstofnun niður vegna þess að hún kom með athugasemdir sem honum ekki líkaði? Ég minnist þess, ég var hér þá.

Ég tel mjög mikilvægt að í því sé gert stórátak að safna upplýsingum og tryggja grunninn sem unnið er á. Ráðherra getur ekki sagt að það sé í góðu lagi hvernig þetta birtist, þá væri hann mjög óraunsær. Ég held að ráðherra ætti frekar að fagna og taka undir með þeim sem hér stendur um að þetta sé eitt brýnasta málið, ekkert að byrja á að vera að sakast við starfsmennina, þeir vinna örugglega vel sína vinnu, það er alveg klárt mál og þar sem ég þekki til, og á ekki að vera að hlaupa í skjól við þá.

Þetta er eitt brýnasta málið að taka á, það er að við fáum hér betri grunn, við fáum efnahagsstofu þingsins sem gæti starfað sjálfstætt og þingmenn, jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu, geti leitað til og stofnanir aðrar. Það vantar þessa grunnvinnu eins og við sjáum á (Forseti hringir.) tölum fjárlaga.