135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

staðan í sjávarútvegi, kjör sjómanna og fiskvinnslufólks.

[13:37]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli sem auðvitað skiptir gríðarlega miklu að við ræðum og reynum að komast til botns í.

En við skulum byrja á því að velta fyrir okkur hver þessi vandi er. Hvers vegna stöndum við hér og ræðum þessi mál? Ástæðan er auðvitað sú að við tókum um það ákvörðun að lækka aflamarkið í þorski eins og allir vita. Þannig er nú mál með vexti að fyrsti aðilinn til að hvetja til þess að þeirri leið yrði fylgt var flokkur hv. þingmanns sem kvað upp úr með það löngu áður en ríkisstjórnin hafði komist að sinni niðurstöðu þannig að ég lít þannig á að flokkur hv. þingmanns og hv. þingmaður séu þeirrar skoðunar að það hafi verið óhjákvæmilegt að fara þessa leið. Spurningin hefur þá verið fyrst og fremst sú hvernig ætti að bregðast við.

Við vitum auðvitað, og það þarf ekki að hafa um það mörg orð, að við getum ekki skapað ný störf í sjávarútvegi fyrir það sem hverfur við það að lækka aflamarkið í þorski. Til þess að bregðast við þessum vanda urðum við að gera það með þeim hætti að reyna að skapa ný störf á nýjum sviðum. Það var það sem lá til grundvallar þeim mótvægisaðgerðum sem við höfum kynnt og ríkisstjórnin hefur lagt fram og sér m.a. stað bæði í fjáraukalagafrumvarpinu og frumvarpi til fjárlaga. Þetta lýtur bæði að því að bæta innri gerð samfélaganna, auka menntunaraðgengi, bæta samgöngur, m.a. til að draga úr tilkostnaði heimila og fyrirtækja sem auðvitað kemur til góða fyrir sjómenn og fiskverkafólk og alla þá sem á landsbyggðinni búa. Ætlar einhver að halda því virkilega fram að þetta skipti ekki einhverju máli, bæði fyrir kjör og atvinnumöguleika fólks á landsbyggðinni?

Hitt er það síðan að þess var líka freistað að leggja fram hugmyndir sem stuðla að því að skapa tafarlaust ný störf á ýmsum sviðum. Ég ætla að taka dæmi af einu atriði sem búið er að reyna að gera tortryggilegt. Ríkisstjórnin ákvað að leggja sérstaka fjármuni til þess að stuðla að atvinnusköpun bæði með því að styrkja stoðir sveitarfélaganna og fara í sérstök verkefni á vegum ríkisins vegna þess m.a. að við gerum okkur grein fyrir því að þegar við drögum saman seglin eins og verið er að gera í heildaraflamarkinu hefur það áhrif á umsvifin í þessum byggðum, ekki bara hjá sjómönnum og fiskverkafólki heldur líka í ýmsum atvinnugreinum sem leiða af umsvifum sjávarútvegsins. Þetta skiptir auðvitað miklu máli. Þess vegna finnst mér að við eigum ekki að gera lítið úr því sem þarna er verið að gera. Þetta hefur þau áhrif til skemmri tíma að það verða umsvif sem ella hefðu ekki orðið í þessum byggðum og kemur til góða fyrir byggðirnar og fyrir það fólk sem þar býr og starfar.

Það blasir líka við að það þurfti sérstaklega að huga að atvinnumöguleikum kvenna. Við vitum að í fiskvinnslunni eru konur mjög stór hluti vinnuaflsins og þess vegna er mjög eðlilegt að í mótvægisaðgerðunum hafi verið sérstaklega kveðið á um ýmis úrræði til að bregðast við þeim vanda sem konur stóðu sérstaklega frammi fyrir. Mér fannst sérkennilegt þegar menn voru að reyna að gera lítið úr því og tala það niður að það væri sérstök ástæða til að nefna konur í þessu sambandi. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið fyllilega verðskuldað og nauðsynlegt að það væri gert eins og hægt væri.

Hv. þingmaður vék að sjálfsögðu mjög að stöðu sjómanna í þessu sambandi. Ég er fyrstur manna til að viðurkenna það og átta mig á því að auðvitað hlýtur þetta að koma sérstaklega hart niður á sjómönnum. Það er eðli málsins samkvæmt og enginn þarf að fara í neinar grafgötur með það. Vitaskuld eru þessar aðgerðir sem ég nefndi hér aðgerðir af því taginu sem koma sjómönnum bæði beint og óbeint vel. Hins vegar er þetta þannig að ég hef átt viðræður við forustumenn sjómanna, bæði Sjómannasambandsins og Farmanna- og fiskimannasambandsins. Þeir hafa nefnt ýmsa hluti í þessu sambandi, svo sem eins og það — af því að hv. þingmaður nefndi það sérstaklega — hvort einhver viðbúnaður væri uppi hjá opinberum lánastofnunum gagnvart vanda fólks á landsbyggðinni sem stafaði af þessum minnkandi tekjum í sjávarútvegi. Það er þannig eins og við vitum í hinum opinbera lánasjóði sem flestir landsmenn eiga viðskipti við, Íbúðalánasjóði, að þar er viðvarandi verið að bregðast við með skuldbreytingum, lánafrestunum o.s.frv. Það þarf í sjálfu sér ekki opinbert átak til þess. Þær aðstæður eru allar fyrir hendi.

Hins vegar hafa m.a. stéttarbræður hv. þingmanns, skipstjórnarmenn, fyrst og fremst lagt áherslu á eitt í viðræðum við mig. Þeir hafa sagt við mig: Það sem skiptir mestu máli núna er að við reynum að fara í það hvort hægt sé að bæta aðgengi okkar að öðrum tegundum eins og ufsa og ýsu, m.a. með því að fara í það að skoða aðstæðurnar í hólfunum vítt og breitt um landið. Ég ætla að vitna t.d. í einn þekktasta togaraskipstjóra landsins og einn þann reyndasta, Björn Jónasson, skipstjóra á Málmey SK, sem sagði í næstsíðustu Fiskifréttum:

„Það hefur gengið mjög illa að ná ýsukvótanum enda er ýsan öll lokuð inni í reglugerðarhólfum. Ýsumiðin hérna úti fyrir Norðurlandi eru að stærstum hluta lokuð. Besta mótvægisaðgerðin,“ segir þessi reyndi skipstjóri, „gagnvart þorskkvótaskerðingunni miklu væri sú að opna þessi hólf enda eru engar forsendur lengur fyrir lokun þeirra.“

Þess vegna var farið í það að skoða þessi hólf. Þess vegna höfum við opnað ýmislegt á þessum hólfum og brugðist þannig við áskorun Farmanna- og fiskimannasambands Íslands — ég átti fundi með mörgum skipstjórum úr þeirri hópi — og áskorun frá reyndum mönnum (Forseti hringir.) sem ég veit að hv. þingmaður er sammála um. Ég tek undir það með þessum reyndu skipstjórum, við erum að fara í það sem þessir skipstjórar kalla mestu og bestu mótvægisaðgerðirnar.