135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

90. mál
[16:39]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Frumvarp til laga um breyting á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands snýr að því, eins og ráðherra kom að, að vernda lífríki sjávar kannski frekar en fiskstofnana með beinum hætti. Í 1. gr. frumvarpsins segir að það eigi að snúa að varðveislu viðkvæmra hafsvæða. Það er orðið löngu tímabært að að varðveita viðkvæm hafsvæði í mun meira mæli en við höfum gert fram til þessa.

Þau veiðisvæði sem eru lokuð í dag, sérstaklega í þessum tilgangi, eru einungis þrír lófastórir blettir, eins og við segjum sem þekkjum fiskimiðin út af Suður- og Suðausturlandi, sem eru kóralsvæði. Reyndar er ekki svo langt síðan að þessi svæði voru friðuð. Þó að fram hafi farið nokkrar rannsóknir á þessum atriðum á vegum Hafrannsóknastofnunar á undanförnum árum þarf miklu fleiri rannsókna við, þ.e. ekki bara á kóralsvæðum og þeim ósnertu svæðum sem eru hugsanlega orðin eftir innan fiskveiðilögsögunnar og á landgrunninu — þau eru ekki mörg reyndar, þau þrjú sem eru út af Suður- og Suðausturlandi eru reyndar þau stærstu sem ég í fljótu bragði man eftir sem hægt væri að kalla ósnert svæði í dag. Þetta eru afar lítil svæði, ná yfir lítil svæði á hafsbotninum, og það tálgast af þeim hægt og rólega og hefur tálgast af þeim með hverju árinu. Tilhneigingin er sú þegar menn leita sér fiskjar, sérstaklega með botnveiðarfærum, að reyna að elta hann þangað þar sem hann helst finnur skjól á svæðum þar sem erfitt er að toga á. Smám saman verður það til þess að menn nálgast þessi svæði kannski meira en hollt er fyrir gróðurinn og botnlagið.

Vissulega hafa orðið miklar breytingar á hafsbotninum við Ísland á síðustu áratugum, eða frá því að togveiðar hófust við landið. Enn er það nú samt þannig að við erum að veiða þessar botnlægu tegundir, aðallega þorsk og ýsu, á sömu svæðunum áratug eftir áratug. Mesta veiðin í þorski er á Vestfjarðamiðum, á gjöfulum Halamiðum, og síðan árstímabundið hér út af Suðurlandinu í hrygningarfiski og öðru slíku. Það bendir til þess, sem er augljóst, að það séu fleiri atriði en botnlagið sem skiptir máli varðandi fiskstofnana og aðgang okkar að þeim. Hafstraumar, ætiskilyrði, hlýindi í sjónum o.s.frv. breyta miklu.

Nú hafa nokkuð stór svæði við landið verið lokuð fyrir öllum veiðum og önnur eingöngu fyrir togveiðum. En nokkur stór svæði — t.d. út af Norðurlandi, norður af Horni, út af Skagatá og vestur af Grímsey, í kringum Kolbeinsey, við Hvalbak, stór veiðisvæði við enda landgrunnsins allt vestur af landinu suður úr Reykjanesi vestur og norður að Bjargtöngum o.s.frv. — eru kjörsvæði til þess að rannsaka hvaða breytingar verða á lífríki sjávar eftir að togveiðum er þar hætt. Þær litlu rannsóknir sem hafa verið gerðar sýna að gróður tekur ótrúlega fljótt við sér á þessum svæðum, það er hægt að græða hafsbotninn upp að nýju með því að hætta að draga þar veiðarfæri.

Eins og ráðherra kom inn á er í æ meira mæli þrýst á aðila í sjávarútvegi, jafnt veiðimenn og útgerð og þá sem selja fisk til útlanda, að leita uppruna fisksins, hvar hann er veiddur, hvernig, hvort það er á botnlæg veiðarfæri eða hvort það er á línu, þ.e. hreyfanleg veiðarfæri eða kyrrstæð veiðarfæri, og hvers konar aðferðum er beitt, hvort hann er frystur úti á sjó, hvort hann er frystur í landi, hvort hann kemst ferskur á markað eða með öðrum hætti.

Við sem störfum í þessari atvinnugrein finnum fyrir æ meiri þrýstingi gegn togveiðarfærum og það er spurt um það æ oftar hvort fiskurinn sem við erum að selja sé veiddur með hreyfanlegum veiðarfærum sem eru dregin eftir botninum og hvort fiskiskipin, togararnir sem við erum að ná í fiskinn á, skilji eftir sig mikla mengun í andrúmsloftinu. Við höfum heyrt það víða, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á undanförnum árum og síðast núna í vetur ef ég man rétt þar sem rætt var um þessi mál og að takmarka með öllum mögulegum hætti togveiðarfæri, bæði reyndar flotvörpu sem botnvörpu. Við þessu hafa menn reynt að bregðast og þá aðallega varðandi fiskstofnana. Í samtölum mínum við menn í Hampiðjunni, því íslenska merkilega fyrirtæki sem er með umsvif úti um allan heim, segja þeir mér að æ meiri orka hjá þeim, æ meiri kraftur, beinist í það að hanna veiðarfæri sem skaða umhverfið sem minnst, þ.e. veiðarfæri sem eru notuð í umhverfisvænna efni skulum við segja, kannski ekki umhverfisvæn en umhverfisvænni en þau efni sem við þekkjum úr hefðbundnum veiðarfærum. Hönnun veiðarfæra tekur æ meira mið af því að það sé léttara að draga þau yfir hafið, þau mengi minna og það fari minni orka í það. Síðast en ekki síst eru á undanhaldi þau veiðarfæri sem eru dregin eftir botninum, þ.e. botntrollin, toghlerarnir og vírarnir, má segja í því formi sem við þekkjum í dag. Það er að færast æ í aukana að skip eru hætt að nota þessa hefðbundnu togvíra, svera þunga togvíra sem dragast eftir botninum og skrapa hann upp. Í stað þess eru notuð önnur efni, svokölluð Dynex-efni og nælonefni sem dragast ekki eftir botninum.

Hönnun á hlerum, sem eru mjög skaðlegir fyrir hafsbotninn og miklu skaðlegri en í raun og veru veiðarfærið sjálft að mínu viti, miðast að því í dag að þeir snerti botninn ekki nema að mjög litlu leyti og helst ekki neitt, heldur svífi yfir botninum án þess að snerta hann. Með alls konar búnaði, tækjum og tólum sem hægt er að hengja á veiðarfærin geta skipstjórnarmenn stýrt þessu nokkuð vel. Að lokum snýst hönnun að því sem áður var kallað bobbingjalengjur eða fótreipislengjur sem dragast eftir botninum. Þær voru í eina tíð kúlur sem snerust eftir botninum og að margra mati sköðuðu ekki botninn nándar nærri eins mikið og þau veiðarfæri sem við notum ekki í dag, þ.e. stórir gúmmíhólkar sem snúast ekki, heldur dragast eftir botninum og mylja það sem undir þeim lendir.

Nú er þessi þróun að fara aftur til baka í þá veru að hanna að nýju fótreipi og bobbingalengjur fyrir troll sem velta eins og hjól eftir botninum í stað þess að dragast eftir honum. Allt er þetta auðvitað liður í því að menn leita leiða til umhverfisvænni veiða, bæði varðandi orkunotkun og verndun á lífríki sjávar. Það sem snýr að útgerð og fiskveiðum er að stærstum hluta af efnahagslegum hvötum, þ.e. menn eru reknir áfram til þessara verka vegna þrýstings erlendis frá af fiskkaupendum og því að reyna að spara orkuna.

Ég fagna því að hér skuli vera komið frumvarp sem beinist að því að fara að sinna rannsóknum og verndun á hafsbotninum meira en gert hefur verið. Ég tel reyndar að það hefði átt að vera komið fram miklu fyrr að við færum að huga að hafsbotninum og reyndar sjávarauðlindum öllum með sama hætti og við ræðum um og hugsum um aðrar náttúruauðlindir til lands, hvort sem það eru fallvötn, jarðhiti eða hvað annað. Við erum að tala um náttúru hafsins, náttúruvernd í hafinu, við erum að tala um að nýta þessa náttúruauðlind með þeim hætti að sjálfbær verði sem er langt frá því að sé í dag, því miður.

Aðrar aðgerðir sem menn hafa gripið til varðandi friðun á veiðarfærum snúa allar að því að vernda fisk og reyndar hrygningarstöðvar líka en ekki beint að náttúru landsins. Það sem ég set spurningarmerki við í þessu frumvarpi er að mér er persónulega illa við að ráðherra sé gefið mikið vald í þeim efnum að taka ákvarðanir um verndun eða nýtingu náttúruauðlinda og það á jafnt við um náttúruauðlindir í sjó og á landi. Ég tel að þessi umræða eigi að fara fram á Alþingi sem og sú hvernig við nýtum náttúruauðlindirnar í sjónum, náttúruauðlindir í hafinu, auðlindir hafs og sjávar og hvernig við stýrum verndun og nýtingu fiskstofna og botnlagsins á landgrunninu. Þessi umræða á fyrst og fremst að fara fram á Alþingi að mínu viti og Alþingi á að taka ákvörðun um allar slíkar ákvarðanir.

Nýjasta dæmið um það sem ég reyndar nefndi lítillega við aðra umræðu fyrr í dag varðandi þetta atriði er sú ákvörðun sjávarútvegsráðherra að hvetja til aukinna veiða á grunnslóð með hreyfanlegum veiðarfærum með því að gera breytingar á viðmiðunarmörkum á ýsu og leggja niður reglugerðarákvæði um notkun smáfiskaskilja á landgrunninu. Nú ætla ég í sjálfu sér ekki að taka afstöðu til þess hvort það er rétt eða röng ákvörðun hvað varðar það að geta haldið úti fiskiskipaflotanum á Íslandsmiðum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að miðað við ástandið í dag er nánast ómögulegt að gera út skip á Íslandi án þess að hafa meiri aðgang að fiskimiðunum. En ég set spurningarmerki við fiskifræðilega þáttinn í því vegna þess að það stangast á við allt annað það sem við höfum verið að gera við stjórn fiskveiða, þ.e. að forðast það að veiða smáfisk. Það hefur verið mín glíma í því fagi áratugum saman, að reyna að forðast að veiða smáfisk af öllum tegundum, hvort sem það er ýsa, ufsi, karfi eða þorskur. Mér finnst það stangast á við þau markmið Hafrannsóknastofnunar, sjávarútvegsráðuneytisins og laga um stjórn fiskveiða að byggja upp fiskstofna við landið ef raunin er sú að það má ekki veiða smáfiskinn. Þess vegna set ég spurningarmerki við fiskifræðilega þáttinn í þeirri ákvörðun. Þeirri ákvörðun fylgir að auki hvati til þess að fara lengra upp á landgrunnið til veiða með hreyfanleg veiðarfæri, nær þeim stöðvum sem við kannski teljum til hrygningarstöðva og þeirra svæða sem við kannski og ekki ólíklega mundum vilja vernda lífríki sjávar.

Einn þáttur hvað þetta varðar sem mér finnst jafnvel að snerti þetta mál eru þau áhrif á framburð jökuláa eftir að búið er að sigta úr þeim lífrænu efnin áður en þau falla til sjávar, eftir stíflugerðir og virkjanir, að ýmislegt bendir til þess í erlendum rannsóknum og víða úti í heimi að það hafi meiri áhrif á lífríki sjávar en menn hafi nokkru sinni ætlað. Jökulárnar bera til sjávar ýmis lífræn efni sem smáfiskur, eða smáseiði fyrst og fremst, nærist á við yfirborð sjávar þangað sem seiðin forða sér fljótlega eftir gotið og þar er þeirra lífríki. Þau forða sér undan áti annarra fiska og á því nærast þau. Það eru til um þetta upplýsingar hjá meðal annars Sameinuðu þjóðunum þar sem hægt er að skoða það mjög myndrænt, t.d. í Kína og í Suður-Ameríku ef ég man rétt, þar sem áhrifin sjást á loftmyndum, hvernig yfirborð sjávar hefur breyst, hvernig það hefur nánast verið gerilsneytt á sumum hafsvæðum vegna þess að þangað rennur sjór sem búið er að sía alla lífræna þætti úr.

Þetta er einn hluti af því sem mér finnst frumvarpið snúast um, þ.e. varðveislu hafsvæða og varðveislu lífríkis sjávar. Mér finnst varla hægt að aðskilja þetta að miklu leyti. Þetta er í raun og veru einn og sami hluturinn.

Að lokum ítreka ég bara að ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram. Ég hvet til þess að það verði tekið til alvarlegrar umræðu en ég set fyrirvara um ráðherravaldið, heimild ráðherra til að taka ákvörðun í þessum málum einn og sér. Það tíðkast ekki varðandi aðrar náttúruauðlindir. Það á ekki að eiga við varðandi auðlindir sjávar heldur.