135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[21:13]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Hæstv. Forseti. Til umræðu er tillaga til þingsályktunar frá þingmönnum Frjálslynda flokksins um aukinn þorskafla á fiskveiðiárinu 2007/2008. Tillagan gerir ráð fyrir að leyfilegur þorskafli fiskveiðiársins verði aukinn um 40 þús. tonn og að heildarafli þorsks verði alls 170 þús. tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Úthlutað aflamark þorsks og þorskaflamark krókabáta verði hækkað sem nemur hlutdeild þeirra í 40 þús. tonna viðbót því sem áður var ákveðið.

Í greinargerð með tillögunni segir:

„Það er mikil nauðsyn nú að ræða rök og tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar (Hafró) ofan í kjölinn enda um vafasaman málstað að ræða.“

Ég get því að hluta tekið undir það sem fram kemur í þingsályktunartillögunni, þ.e. ég tel óhætt að veiða meira af þorski en ráðherra ákvað og lagði til í sumar, sem er reyndar það sem við höfum rætt um nánast í allan dag. Það tengist að auki því máli sem var rætt hér áðan varðandi vatnalög, þ.e. yfirráð yfir auðlindum.

Ég ítreka að hugmyndin að baki tillögunni hugnast mér, þ.e. að auka veiðar. En ég set þann fyrirvara við að mér finnst að þingsályktunartillagan hefði átt að taka betur á kjarna málsins, á því sem það snýst í raun um, þ.e. stjórn fiskveiða í heild sinni í stað þess að við beinum sjónum okkar eingöngu að þorskinum. Það er hluti af þeim mistökum sem ég tel okkur oft á tíðum hafa gert í þeim leikreglum sem við höfum notað til að byggja upp fiskstofnana. Við höfum ekki litið á heildarmyndina heldur ákveðna stofna, einangraða hvern frá öðrum, sem þeir eru ekki. Dæmi um þetta er t.d. samhengið á milli nytjastofna eins og þorsks og síðan stofna eins og loðnu.

Með leyfi forseta, vitna ég í skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá því í sumar um nytjastofna sjávar þar sem segir m.a. um þessi mál:

„Þrátt fyrir nokkra kólnun á liðnum vetri, virðist enn ríkja hlýskeiðsástand á Íslandsmiðum. Af þeim sökum hefur ástand loðnustofnsins verið í mikilli óvissu síðastliðin ár og þar með viðgangur ýmissa mikilvægra fiskstofna sem á loðnu lifa.“

Síðar í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Meðalþyngd þorsks eftir aldri hefur lækkað verulega á síðustu árum og var meðalþyngd flestra aldursflokka í stofnmælingu haustið 2006, afla ársins 2006 og stofnmælingu í mars 2007 í eða við sögulegt lágmark. … Líklega má rekja þessa þróun að einhverju leyti til minna aðgengis þorsks að loðnu.“

Þetta kemur fram í niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar og ég tek undir þetta. En tillaga Hafrannsóknastofnunar um niðurskurð á þorski er byggð á tveimur meginrökum. Annars vegar út frá því að það séu færri fiskar í sjónum, 60% af rökunum fyrir þessum 30% niðurskurði eru að það séu færri fiskar og það hafi verið gengið á stofninn. Að 40% er það vegna þess að fiskurinn er of léttur. Þetta eru í sjálfu sér ekkert mjög flóknir útreikningar þegar á endastöðina er komið í öllum rannsóknunum eins og kemur fram í skýrslunni. Til að ákveða veiðistofn úr ákveðnum árgangi er áætlaður fjöldi fiska úr árgangi margfaldaður með þyngdinni og út kemur veiðistofninn. Þyngdin hefur í þessu tilfelli lækkað, einn liðurinn í dæminu hefur lækkað og þess vegna er útkoman lægri.

Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar varðandi loðnu verður ekki séð að menn velti þessu mikið fyrir sér, þ.e. samhenginu sem Hafrannsóknastofnun sjálf bendir á, að fiskurinn sé of léttur, vanti loðnu og þannig ástand sé í sjónum. Það hefðu verið rök fyrir því að draga úr loðnuveiðum eða jafnvel hætta loðnuveiðum tímabundið eins og gert hefur verið bæði á Íslandi og víðar, t.d. í Noregi, meðan sá stofn væri að byggja sig upp og byggja í leiðinni upp aðra stofna. Það er þekkt í þessum fræðum eins og annars staðar í líffræðinni að bráðin, sjálf bráðin, ræður mestu um stofninn. Ætið, í þessu tilfelli loðnan, ræður langmestu um stofninn sem nærist á henni, þ.e. þorsk og aðrar fisktegundir. Þetta er þekkt á meðal ýmissa fuglategunda og fleiri tegunda í lífríkinu.

Ég hefði viljað að í tillögu frjálslyndra væri farið víðar í þessum stjórnaraðgerðum fiskveiða og fleiri fiskstofnum í stað þess, sem mér finnst hún bera keim af að sumu leyti, að falla í sömu gryfju og við höfum talað um að Hafrannsóknastofnun hafi gert, þ.e. horfi of einangrað á ákveðna stofna í stað þess að líta á samhengi þeirra.

Ég hefði t.d. viljað að í tillögu sem þessari kæmi fram sú niðurstaða sem Hafrannsóknastofnun birti sjálf í skýrslu sinni um veiðar á stofnun, þ.e. hvað veiðin sjálf virðist hafa lítið að segja, eins og ég hef nefnt áður í dag. Við veiðum nánast upp á kíló hið sama úr stofnum eins og þorski og það sem ráðlagt er að veiða af loðnu án þess að það virðist bera þann árangur sem við teljum að ná ætti. Það er sá fyrirvari sem ég hefði viljað hafa á þessu.

Ég hefði líka talið að í þingsályktunartillögu eins og þessari, sem á að taka á fiskveiðum og auka fiskveiðar í kringum landið, ætti að felast meiri framtíðarsýn til að taka heildstætt á málinu. En ég er sammála því sjónarmiði sem kemur fram í tillögunni varðandi þorskinn. Hafrannsóknastofnun hefur svarað því í dag hvaða áhrif hugsanlega það kann að hafa að við landið eru fleiri en einn þorskstofn. Með leyfi forseta, vitna ég í svar við spurningu sem Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður beindi til sjávarútvegsráðherra og hefur verið svarað núna. Hafrannsóknastofnun segir:

„Lengi hefur verið vitað að þorskur hrygnir víða umhverfis landið … Ekki liggja þó fyrir niðurstöður um mikilvægi einstakra hrygningareininga með tilliti til heildarframleiðslugetu stofnsins. … Enn sem komið er vantar þó mikið á að nægileg þekking á stofneiningum þorsks sé fyrir hendi til að hægt sé að stjórna veiðum á grundvelli slíkrar þekkingar.“

Í þessum orðum felst viðurkenning á því að upplýsingarnar hafi lengi legið fyrir án þess að við höfum tekið tillit til þess og hiklaust fært veiði úr einum stofni í annan með framsali, sölu, veiðiheimildum o.s.frv., en ekki tekið tillit til þessa í veiðiráðgjöfinni. Hafrannsóknastofnun leitar eftir því að fá heimildir, bæði fé og búnað, til að gera slíkar rannsóknir.