135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

tilraunaveiðar í Ísafjarðardjúpi.

[15:16]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Já, virðulegi forseti. Það getur verið erfitt að höndla umræðu um þetta mál eftir að hafa hlustað á síðasta ræðumann, hv. þm. Karl V. Matthíasson, sem lýsti því reyndar yfir að það væri gleðilegt og ánægjulegt að þarna væri verið að draga botnvörpu eftir botninum á Ísafjarðardjúpi, inn um alla firði, um alla grunnslóð (Gripið fram í: Þetta er rangfærsla.) og að það skipti ekki máli hver það væri, hugsanlega gæti þarna verið togari á handfæraveiðum. Þetta finnst manni eiginlega ekki beint til þess fallið að hér sé hægt að halda uppi vitrænni umræðu um þetta mál.

Það sem ég vil leggja áherslu á og í samtölum mínum í morgun við sjómenn og útgerðarmenn á Vestfjörðum og við Ísafjarðardjúp þá hafa þeir lagt áherslu á að það sé enginn að setja sig upp á móti því að verið sé að gera tilraunir með veiðarfæri, að verið sé að þróa veiðarfæri í þeim tilgangi að reyna að efla hér fiskstofnana og vernda lífríki sjávar, um það snýst málið, en menn gera athugasemd við það, eins og þeir sögðu Vestfirðingar og sjómenn við Djúpið: Við héldum að þetta ættu að vera eitt, tvö, kannski þrjú holl og síðan væri þetta búið en þarna er stór togari með vikuveiðileyfi.

Menn gera athugasemdir við það þegar verið er að ganga á þetta viðkvæma hafsvæði, eins og ég hef tíundað hér, bæði varðandi rækju, varðandi ýsuseiði, varðandi uppeldisstöðvar þorsks, fyrir utan það náttúrlega að hamla öðrum veiðum. Þeir eru að koma í veg fyrir að aðrir geti stundað sjó. Allt hafsvæðið er opið, landgrunnið er opið. Það er hægt að gera þetta á öðrum stöðum. Því fagna menn auðvitað því að við erum alltaf að reyna að leita leiða til að leysa þessi mál. En að þurfa endilega að fara inn á þennan fjörð, þennan viðkvæma fjörð, inn á þetta djúp, það er það sem menn eru óánægðir með.

Í frumvarpi sjávarútvegsráðherra sem við ræddum í síðustu viku segir: Ráðherra skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sporna við að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofnsins. Þetta stangast á við það. Ákvörðun ráðherra stangast á við það.