135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[15:47]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hugsa að ég hafi sömu áhyggjur af ofneyslu áfengis og fíkniefna og hv. þingmaður. Ég vona að hún líti ekki þannig á að þetta frumvarp sé framlag okkar 17-menninganna til þess að mæla með ofneyslu, síður en svo. Við mælumst bara til þess að hér verði aukið viðskiptafrelsi með þessar vörur og það fært nokkurn veginn í sama farveg og gildir um aðrar vörur.

Hv. þingmaður spyr mig hvort ég hafi ekki áhyggjur af því að sú breyting sem við leggjum hér til muni auka drykkju unglinga og talar þá um aldur þeirra starfsmanna sem vinna í þessum verslunum.

Ég minni á að í 10. gr. þessa frumvarps segir:

„Starfsmenn sem afgreiða áfengi mega ekki vera yngri en 20 ára.“

Við sem flutningsmenn þessa frumvarps gerum kröfu um það og ætlumst til þess að eftir þessu verði farið. Telji verslunarmenn sig ekki geta gert það missa þeir þau leyfi sem þeir fá hjá sínum sveitarstjórnum til að stunda þessa verslun eða bara afgreiða ekki áfengi. Við hljótum að gera ráð fyrir því að fólk fari eftir þeim reglum sem því er uppálagt að fara eftir.

Ég tel að sú breyting sem við erum að tala hér um muni ekki auka neyslu barna og unglinga á áfengi. Ég mundi miklu frekar hafa áhyggjur af heimabruggi og smygli og öðru slíku sem krakkarnir hafa komist í á svartamarkaði. Það má ekki reyna að drepa svona mál með svona röksemdum sem ég held að standist ekki. (Forseti hringir.) Þær minna svolítið á rökin sem færð voru þegar menn voru hér að reyna að leyfa (Forseti hringir.) sölu á áfengum bjór, hæstv. forseti.