135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:53]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir að það er mikill fíkniefnavandi á Íslandi. Það þarf náttúrlega að fara fram gjörbylting á því sem er að gerast á þeim vettvangi. Við getum hugsað okkur sem svo að lögreglan taki í dag 15 til 17 ára ungling undir áhrifum amfetamíns. Hvað er gert? Farið með hann upp á stöð, það skrifað niður, hann sendur heim. Viku síðar gerist hið sama, farið með hann upp á stöð, skrifað niður, sendur heim. Þannig gengur það þar til efnin hafa virkað það vel á heila viðkomandi að hann brýtur lögin, veldur ofbeldisverki eða einhverju slíku. Þá er loksins fara að taka á málunum. Því miður er ástandið þannig. Við þurfum náttúrlega að vinna miklu öflugar og harðar í þessum málum.

Ég er ekki að, eins og hv. þingmaður var að gefa í skyn, að óska eftir að banna allt. Ég er alls ekkert að segja að þrengja eigi áfengislöggjöfina. Ég segi: Við skulum hafa hana eins og hún er og vera sátt við það. (Gripið fram í.) Nei, ástandið er mjög slæmt en það mundi versna til muna ef við færum að auka aðgang að alkóhóli, það liggur í hlutarins eðli. Það er þannig. Því meira framboð sem er á vöru því meiri verður neyslan. Þegar neyslan verður meiri, eins og hv. þingmaður náttúrlega veit manna best, og framboðið eykst þá fara menn að lækka verðið. Það mun haldast í hendur við fíkniefnamarkaðinn, mun lækka verðið þar því að það er víma sem keppir við vímu.