135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

afgreiðsla iðnaðarnefndar á frumvörpum til vatnalaga.

[13:39]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég hélt eitt augnablik að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir ætlaði að koma upp og þakka mér fyrir að hafa mokað út úr flórnum sem hún skildi eftir ómokaðan. Það er einfaldlega þannig að það var þessi hv. þingmaður sem gaf loforð fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og það var hún sem vegna atburðarásar hafði ekki tök á að efna það. Ég tek fram að ég tek rök hennar alveg fyllilega gild, það urðu ráðherraskipti og hún hvarf úr ráðuneytinu, en það breytir ekki hinu að í ráðuneytinu lágu fyrir drög að skipunarbréfi. Allar tilnefningar voru komnar og bréfið dagsett 1. september en það var Framsóknarflokkurinn sem hafði ekki sömu burði og Sjálfstæðisflokkurinn til að standa við orð sín. Um það snýst þetta mál. Við tókum að okkar í Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum að efna loforðið sem hv. þingmaður gaf fyrir hönd ríkisstjórnarinnar en flokkur hennar stóð aldrei við. Það er því alveg hægt að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi burði til að standa við sín orð og það hafa ekki allar flokkar í þessum sal, herra forseti.

Hins vegar undrar mig auðvitað að hv. þingmenn Vinstri grænna komi hér og séu óhressir með að þetta mál hafi verið afgreitt út úr nefndinni en ekki þeirra mál. Ég minnist þess að minn góði vinur, hv. þm. Ögmundur Jónasson, kom hingað og það hefur aldrei gerst fyrr, a.m.k. ekki síðustu mánuði, að hann bar lof á iðnaðarráðherra fyrir að hafa lagt þetta frumvarp fram. Það virtist vera mikil gleði og ánægja í ranni allrar stjórnarandstöðunnar á þeim degi nema Framsóknarflokksins sem auðvitað fór úr salnum og lagði ekki í umræðuna vegna þess að hann skammast sín fyrir málið. Ef einhver hefur vonda samvisku í þessu máli er það Framsóknarflokkurinn.