135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:15]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, fyrir það að vekja athygli á málinu. Ég hélt um tíma, þegar þingið var að byrja í haust, að menn væru búnir að gleyma þessu máli. Hitinn í þessu máli hefur minnkað frá því sem var í sumar eða haust og sýnir sig í áhuga fjölmiðla á málinu.

Vissulega er gott að ræða þetta mál á þinginu. Ástæðan er einfaldlega sú að skýrsla okkar fjárlaganefndar var lögð fram í lok september. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum fjárlaganefndarmönnum sem þeir settu í það — hv. þm. Jón Bjarnason, hlustaðu nú — settu í að klára þessa skýrslu saman. Það má vel vera að einhverjum hafi þótt sem við værum að rífa þetta út úr nefndinni en nefndin var hins vegar einhuga í því, a.m.k. meiri hluti hennar, að setja þetta í ákveðinn farveg. Í framhaldinu var skipaður starfshópur sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson leiðir og í situr auk mín skuggaráðherra fjármála, hv. þm. Jón Bjarnason. Sá þingmaður vísaði til þess sem starfshópnum er ætlað að gera. En það var sjónarmið meiri hluta nefndarinnar að fara yrði yfir þann túlkunarágreining sem kom upp sérstaklega vegna 6. gr. fjárlaga fyrir 2006.

Ég hvet einfaldlega þingmenn sem sitja bæði í fjárlaganefnd og fastanefndum þingsins, út af því að við erum að fjalla um fjáraukalög og fjárlög fyrir árið 2008, að fara yfir þessi atriði. Ég hef fundið fyrir því í fjárlaganefndinni að menn ræða að sjálfsögðu slíkar heimildir. Með hliðsjón af því sem fjárlaganefndin ályktaði og því sem hér hefur komið fram frá hæstv. fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda í morgun í kjölfar skýrslu okkar sem lögð var fram á þingskjali í gær tel ég ljóst að þessir tveir aðilar taka undir þá túlkun sem ég held að minni og meiri hluti nefndarinnar deili nú og við getum verið sátt um það. Menn telja eðlilegt og tímabært að endurskoða orðalag heimilda af þessu tagi í því skyni að girða fyrir túlkunarágreining. Við vildum ná því fram og á það benti ég í upphafi umræðunnar um þetta mál þegar ég kom að því í lok ágúst nú í ár.

Í sjálfu sér stendur álit meiri hluta fjárlaganefndar fyrir sínu. Ég á von á að starfshópurinn sem hefur verið skipaður og í eru þrír fulltrúar og stjórnarandstaðan á fulltrúa sé að hefja störf. Við skulum vona að ekki þurfi að bíða eftir því að sú nefnd fari af stað. Að öðru leyti liggur fyrir álit hæstv. fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda, það kom fram í morgun og var dreift á minnisblaði.

Ég vil að lokum segja við hv. þingmenn að það var ekki ætlunin í störfum fjárlaganefndar að taka upp hanskann fyrir einn eða neinn í þessu máli. Við unnum þetta eins faglega og við gátum gert og menn geta þá gagnrýnt þau faglegu vinnubrögð. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson þekkir það mætavel eins og ég hvernig er að standa í stappi í fjárlaganefndinni. Hann reyndi á sínum tíma að gera sitt besta í þeim efnum og hvað varðar þær yfirlýsingar, að hæstv. fjármálaráðherra hafi gefið mér kjaftshögg með þessu minnisblaði í morgun, sem voru yfirlýsingar hv. þm. Jóns Bjarnasonar, vil ég benda hv. þingmanni á að á sama hátt hef ég þá fengið kjaftshögg frá ríkisendurskoðanda því að þetta er sameiginlegt minnisblað þeirra. Ég verð þá að standa undir því en ég lít ekki svo á að þetta minnisblað sé sett fram með þeim hætti.

Ég vil að lokum benda hv. þingmönnum á að aðgát skal höfð í nærveru sálar í þessum efnum. Mér hefur oft og tíðum fundist umræðan snúast um að ómaklegt sé að vera með ferju milli lands og eyjar, ekki það að við þingmenn þekkjum ekki betur en við skulum hins vegar gæta okkar í orðavali þegar kemur að því að klára þetta verk.