135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:30]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við værum á byrjunarreit mundum við ugglaust spá í það að leggja bann við notkun áfengis og tóbaks, og það er bann við fíkniefnanotkun þannig að hvar eru mörkin? En við erum ekki á byrjunarreit. Við búum í ákveðnu samfélagi sem hefur þróast á ákveðinn hátt og ég hef lagt höfuðáherslu á að við aukum ekki aðgengi að þessum vörum, fyrst og fremst vegna þess að það raskar lífi ungs fólks, það mun raska lífi þúsunda íslenskra ungmenna. Um leið mun það hafa samsvarandi áhrif inn í fjölskyldur þeirra og inn í samfélagið allt. Þó að það séu kannski ekki nema 10% af þjóðinni sem misnota áfengi þá er jafnalvarlegt og jafnþungbært að fylgjast með því.

Það er þetta sem málið snýst um, að opna ekki leiðina og gefa stórmörkuðunum, öllum gróðapungunum hér og þar, færi á því að hagnast á óhamingju ungs fólks og íslenskra fjölskyldna.