135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:39]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður telur að þetta sé vara eins og hver önnur vara í landinu þá þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn í þeim efnum. Þá er ekki gerður greinarmunur á því hvað er meinlaus vara og hvað er skaðleg vara. Vín veldur of miklum skaða í þjóðfélaginu til þess að við getum leyft okkur að vera að opna dyrnar í þeim efnum, ég tala nú ekki um miðað við þá þróun sem hefur verið á undanförnum árum með mjög aukinni neyslu vínanda á Íslandi á mann.

Ef við ætlum að horfa á vín þannig að það megi flæða um kassa stórmarkaðanna eins og önnur vara þá er mín skoðun einfaldlega sú að við séum á villigötum.