135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:35]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði hér um feitan mat og ýmislegt sem óhollt er. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ýmis matvæli eru talin óholl undir vissum kringumstæðum en við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er talsverður munur á vínum og mat. Vín eru ekki venjuleg matvara vegna þess að í víni er efni sem heitir vínandi sem hefur áhrif á fólk og breytir fólki, hefur þau áhrif að fólk gerir hluti og segir hluti sem eru oft rugl og vitleysa og valda mjög oft ógæfu. Áhrifin eru á sinn hátt ekki bara þannig að þau séu neikvæð, þau valda líka, hvað eigum við að segja, góðri tilfinningu og vímu sem gerir það að verkum að fólk sækir meira í þau. Þess vegna upplifa menn oft helgidóminn í kringum vínið vegna áhrifanna sem það veldur, ekki vegna þess hvar það er selt. Það er mín skoðun, frú forseti. (ÓN: Það skiptir engu máli hvar það er selt.) Það skiptir miklu máli hvar vínið er selt. Ef það er selt alls staðar og mjög auðvelt er að komast í það þýðir það einfaldlega að fleiri hafa aðgang að því sem veldur því að neyslan eykst. Aukin neysla alkóhóls þýðir meiri vandræði.