135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

fangelsismál.

99. mál
[14:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Fyrirspurn mín er sett fram vegna umræðu sem hæstv. dómsmálaráðherra hóf þegar hann hélt ræðu á Kvíabryggju fyrir skömmu. Hann taldi að skoða ætti að bæði byggja og reka fangelsi í einkaframkvæmd eða með einkarekstri. Ég vil setja nokkurn fyrirvara við þær hugmyndir. Ég tel að það komi til greina að byggja fangelsi í einkarekstri en ekki að reka þau. Ég ætla að færa rök fyrir því.

Varðandi uppbyggingu fangelsa er ljóst að staðan hér á landi er alls ekki í nógu góðum farvegi. Við erum með fangelsi hér sem þarf að loka og þar vil ég sérstaklega nefna Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og Kvennafangelsið í Kópavogi. Það eru stofnanir þar sem húsnæðið stenst ekki kröfur samtímans og Hegningarhúsið er á undanþágum. Ég tel að það verði að loka þeim stofnunum hið fyrsta og það er ekki hægt nema við byggjum nýtt fangelsi.

Varðandi uppbygginguna þá þarf að byggja viðbyggingu við Litla-Hraun. Komin er fram áætlun um hvað það geti kostað, um 500 millj. kr. Þar þarf að byggja við heimsóknarálmu o.fl. en í það er ekki lögð ein einasta króna á fjárlögum.

Á bls. 343 í fjárlagafrumvarpinu segir:

„591 Fangelsisbyggingar. Lagt er til að fjárveiting liðarins verði 8 millj. kr. og lækki um 170,5 millj. kr. frá núgildandi fjárlögum.“

Það er verið að lækka fjárlögin stórlega varðandi uppbyggingu í fangelsismálum. Ég tel að þetta sé afturför hjá okkur og vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi hafið undirbúning að því að byggja fangelsi í einkaframkvæmd. Mér finnst koma til greina að byggja í einkaframkvæmd af því að það er svo brýnt. Við verðum að byggja upp á Litla-Hrauni og ekki síður á Hólmsheiði. Þar verður að byggja nýtt 64 rýma fangelsi, sem eru reyndar ekki 64 rými þegar upp er staðið, af því að rýmum fækkar þegar við lokum Hegningarhúsinu og Kvennafangelsinu.

Varðandi reksturinn hefur Guðmundur Gíslason forstöðumaður fangelsa á höfuðborgarsvæðinu tekið saman greinargerð um slíkan rekstur í Bretlandi. Hann komst að þeirri niðurstöðu að einkarekstur eins og þar er mundi ekki henta í íslensku starfsumhverfi. Ég vil líka benda á að þar sem einkarekstur hefur verið í fangelsum, eins og í Bandaríkjunum, hafa komið upp stórir lobbíhópar sem hafa verið að lobbíera eða reyna að hafa áhrif á þingmenn til að fjölga afbrotum sem dæmt er fyrir og lengja afplánunartímann. Þetta er mjög neikvæð þróun. Ég tel að við eigum alls ekki að fara þá leið.

Á sama tíma og ég dreg fram þessa svörtu mynd varðandi byggingarmálin vil ég halda því til haga að starfið sem á sér stað inni í fangelsunum er gott. Kvörtunum til ráðuneytisins og kærum vegna agabrota hefur fækkað og ég tel að starfsemin sé góð og fangaverðir hafi staðið sig vel (Forseti hringir.) og stjórnendur fangelsa. En byggingarmálin eru í algjörum ólestri.