135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

fangelsismál.

99. mál
[14:26]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ekki er ég málsvari þess að viðhalda þessum byggingum í Reykjavík eða Kópavogi lengur en nauðsyn krefur. Ég hef aldrei verið einn sérstakur málsvari þessara bygginga. Ég tók hins vegar við því verkefni að koma fangelsismálum á betri rekspöl og ég tel að það hafi tekist á Kvíabryggju og Akureyri og að það sé unnið markvisst að því á Litla-Hrauni og það sé verið að gera raunhæfar tillögur um það hvernig þetta verði gert í Reykjavík með nýju fangelsi. Ég er stoltur af þeim árangri sem við höfum náð á þessu sviði og tel að það sé rétt að málum staðið og skynsamlega og það sé verið að nýta fjármuni vel og það sé verið að vinna þetta í þeirri röð sem eðlilegt er og skynsamlegt er.

Ég tel að augljóst að 2009 verður ekki komin sú aðstaða í fangelsismálum á höfuðborgarsvæðinu sem er varanleg og til frambúðar eins og mál hafa þróast. Það er alveg ljóst.

Varðandi fjármögnunina þá tel ég að á næsta ári, miðað við það sem við höfum gert áætlanir um, sé unnt að fjármagna þær byggingar sem við teljum nauðsynlegt að ráðast í á næsta ári á Litla-Hrauni með því fé sem fæst fyrir sölu á landi.