135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

samstarf Íslands, Noregs og Danmerkur um björgunarmál og almannavarnir.

105. mál
[14:30]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Fyrir ári vorum við nokkur úti í Washington og skrifuðum þar undir samkomulag við Bandaríkjamenn í tilefni af brottför varnarliðsins frá Íslandi. Þar var því m.a. lýst yfir að Ísland mundi fá aðild að þríhliða samkomulagi sem er í gildi milli Bretlands, Kanada og Bandaríkjanna um leit og björgun á Norður-Atlantshafi.

Ég hef skrifað undir samning við danska varnarmálaráðherrann um samstarf Landhelgisgæslunnar og danska flotans og væntanlega mun ég skrifa undir samning þann 30. nóvember nk. við norska dómsmálaráðherrann um sameiginlegt útboð á þyrlum til leitar og björgunar á Norður-Atlantshafi.

Við höfum síðan gert þessi rammasamkomulög við Dani og Norðmenn og fulltrúar dómsmálaráðuneytisins koma að þeim viðræðum sem fara fram á grundvelli þeirra yfirlýsinga. En síðan eru einstakir þættir sem lúta að tvíhliða samskiptum á milli stofnana og þar kemur dómsmálaráðuneytið að með stofnanir sínar og síðan Landhelgisgæslan og aðrar stofnanir eftir því sem við á, m.a. lögreglan, því að það er líka samstarf á milli lögreglunnar hér á landi og aðila bæði austan hafs og vestan. Raunar er gert ráð fyrir því í samkomulaginu sem var gert við Bandaríkjamenn að efla samstarfið á milli Landhelgisgæslunnar og strandgæslunnar í Bandaríkjunum og milli lögregluyfirvalda hér og þar.

Við erum að vinna að þessu innan þessa heildarramma, innan þess heildarsamkomulags sem gert var við Bandaríkin og innan þeirra samninga sem gerðir hafa verið við Dani og Norðmenn. Ég hef ekki orðið var við neinn áherslumun á milli þess sem við höfum verið að segja sem sinnum leitar- og björgunarstörfum og þess sem fram hefur komið hjá utanríkisráðuneytinu.

Varðandi það sem kallað er North Atlantic Forum, og ég hef verið að tala um á ráðstefnum erlendis, verður í næstu viku haldinn fundur í Svíþjóð. Þar koma fulltrúar frá strandgæslum og aðilum við Norður-Atlantshaf saman til að ræða þessi mál, ekki stjórnmálamenn heldur þeir sem sinna þessu innan einstakra stofnana þannig að þetta er lifandi samstarf. En það þarf kannski að formbinda það betur til að tryggja samstarfsleiðir og skapa öflugri samstarfsvettvang þegar á reynir við hættulegar aðstæður.

Hv. þingmaður vitnaði í ráðstefnu sem haldin var í Tromsö nú fyrir skömmu. Yfirmaður norska heraflans var gestgjafi á ráðstefnunni og flutti mjög ítarlega ræðu. Hann mun eftir fáeina daga leggja fram í Noregi tillögur sínar um varnaráætlun Noregs fyrir næstu fimm árin. Hann útlistaði í ræðunni sem hann flutti í Tromsö meginþætti í þeirri stefnumörkun. Þar kemur m.a. fram að þegar litið er til leitar og björgunar og öryggis á hafinu yrðu það frekar borgaralegar stofnanir en herafli sem yrðu nýttar. Menn geta ekki búist við því að heraflinn verði nýttur til þess að halda uppi eftirliti eða gæta öryggis skemmtiferðaskipa, olíuskipa eða gasflutningaskipa.

Í því ljósi höfum við skipulagt framtíð Landhelgisgæslunnar með smíði á nýju varðskipi og kaupum á nýrri flugvél. Og björgunarþyrlurnar eru líka hugsaðar til þess að geta nýst í slíkum verkefnum. Það er enginn árekstur á milli þessarar stefnumörkunar okkar og þess sem menn eru að ræða um við gæslu öryggis á Norður-Atlantshafinu. Þvert á móti er ég sannfærður um að þetta bil sem verður á verksviði borgaralegra eftirlitsaðila mun breikka og heraflinn frekar hafa minna hlutverki að gegna en áður.

Það er raunar svo að Norðmenn eiga, held ég, enga haffæra freigátu, eða ekkert haffært herskip í sjálfu sér. Þeir styðjast eiginlega alfarið við varðskip við eftirlitsstörf sín á Norður-Atlantshafi og þótt varðskipin séu rekin undir handarjaðri norska flotans þá sinna þau löggæslustörfum og eiga mjög auðvelt með að eiga samstarf við Landhelgisgæsluna og íslenskar stofnanir. Mín tillaga er því sú í þeim ræðum sem ég flyt að þessir aðilar skipuleggi samstarf sitt betur og þannig verði öryggið betur tryggt. Ég tel raunar að við höfum lagt grunn að slíku samstarfi við Dani með samningnum sem ég ritaði undir ásamt danska varnarmálaráðherranum.