135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

skuldasöfnun í sjávarútvegi.

[15:59]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa sumir talað eins og allir stjórnendur í íslenskum sjávarútvegi hafi anað út í fjárfestingu og að fjármálastofnanir lánað til þessara fjárfestinga algjörlega blint og án þess að huga að því hvort menn gætu borgað þessi lán sín til baka. Það er ekki bara þannig, virðulegi forseti, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði að menn horfi til veðanna. Auðvitað er ekki síður horft til þess hvort fyrirtækin og einstaklingarnir hafi greiðslugetu til að borga af þessum lánum. Þeir sem takast á hendur skuldbindingar varðandi lántökur verða auðvitað að standa skil á því og ef þeir gera það ekki ganga fjármálastofnanirnar að þeim. Þannig er það í viðskiptum og þannig gerist það.

Þess vegna er það þannig að þó að við séum öll af vilja gerð og viljum hafa skoðun og þekkingu á öllum sköpuðum hlutum held ég að aðrir séu betur til þess færir, m.a. stjórnendur fyrir fyrirtækjunum, til að taka þessar ákvarðanir. Þess vegna er það ekki pólitísk ákvörðun hvort við segjum á einhverjum tímapunkti: Nú er nóg komið. Auðvitað verða menn að hafa gætur á þessu og það er hlutverk stjórnenda í fyrirtæki að gera.

Það sem menn horfa fyrst og fremst til er greiðslugetan. Fyrir 20 árum voru heildarskuldir í sjávarútvegi minni en núna, þá var heildaraflamark t.d. í þorski verulega meira. Samt sem áður voru erfiðleikar í íslenskum sjávarútvegi. Það hefur heilmikið gerst síðan, bæði í hagræðingu fyrirtækja, tæknivæðingu sem gerir það að verkum að menn ná meiri árangri, meiri nýtingu, betri framlegð o.s.frv.

Svo má ekki gleyma því að hér á Íslandi er það eins og í öðrum löndum að við höfum reynt að aðlaga sóknarþungann í veiðiflotanum að veiðiþoli fisktegundanna. Það hefur kostað peninga, það er alveg rétt sem hv. þingmenn hafa sagt. Þannig hafa menn líka reynt að gera annars staðar, t.d. í Evrópusambandinu. Þar hafa menn hins vegar gert það þannig að ríkisvald og ríkissjóðir viðkomandi ríkja hafa skuldbundið sig í þessum efnum. Skuldasöfnun hefur ekki verið í sjávarútveginum í þessum ríkjum af þessum ástæðum, heldur hjá ríkissjóðunum. Hjá okkur er það ekki þannig. (Gripið fram í.) Það eru fyrirtækin sjálf sem hafa staðið fyrir þessari hagræðingu og reynt að að draga úr sóknarmættinum og aðlaga hann (Forseti hringir.) veiðiþoli fisktegundanna. Það er stóri munurinn á okkar sjálfbæra sjávarútvegi og ríkisstyrkta sjávarútveginum í Evrópusambandinu.