135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun.

[10:44]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég hefði vænst þess af hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, fyrst hann á annað borð kemur hingað upp til að tala um orkumál og vatnsréttindi, að hann fjallaði frekar um hvernig Framsóknarflokkurinn, í skjóli myrkurs og án þess að segja nokkrum manni frá, afhenti Landsvirkjun vatnsréttindin í Þjórsá.

Það er hins vegar alveg fullkomin samstaða með Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum í þessum málum. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt úr þessum stól að það standi ekki til að einkavæða Landsvirkjun. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður Ögmundur Jónasson sagði líka í Viðskiptablaðinu á síðasta föstudegi að ekki stæði til að einkavæða orkulindirnar. Það er það sem skiptir öllu máli í þessu efni, finnst mér, að þær orkulindir sem eru í forsjá samfélagsins verði það áfram.

Að því er varðar spurninguna sem hv. þingmenn sögðu að hæstv. forsætisráðherra hefði ekki svarað, um háeffun Landsvirkjunar vil ég segja: Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa fyrir sitt leyti svarað þeirri spurningu. Þeir hafa hver einasti, allir sem einn, greitt atkvæði með því að hlutafélagavæða Hitaveitu Suðurnesja. Þeir hafa lýst því yfir fyrir sína parta og sinna pólitísku vandamanna að ekkert sé að því að háeffa orkufyrirtæki. Hver einasti þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í salnum, hver einasti þingmaður Framsóknarflokksins í salnum, greiddi atkvæði með því að háeffa Hitaveitu Suðurnesja. Hver er þá munurinn á því að gera það og því að hlutafélagavæða Landsvirkjun?

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar verða að læra eitt: Þótt það verði ríkisstjórnarskipti þá er ekki hægt að breyta fortíðinni. Framsóknarflokkurinn getur ekki breytt skuggalegri fortíð sinni í orkumálum og að því er varðar Vinstri hreyfinguna – grænt framboð þá liggur fyrir að hún hefur tekið þátt í því á Alþingi að háeffa orkufyrirtæki. Vinstri grænir geta því lítið sagt þótt hæstv. forsætisráðherra hefði sagt að það ætti að einkavæða Landsvirkjun. Það gerði hann ekki heldur tók hann af skarið.