135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

Hagstofa Íslands og opinber hagskýrslugerð.

128. mál
[11:39]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur fram hjá hæstv. forsætisráðherra að þetta séu lágmarksbreytingar. Það er alveg óhætt að taka undir að svo sé.

Mér finnst athyglisvert að hæstv. forsætisráðherra sagði í aðdraganda kosninga að ekki hefði náðst nein samstaða um breytingar á Stjórnarráðinu. Hann hefði átt fundi með formönnum annarra stjórnmálaflokka og ekki hefði náðst nein samstaða. Þess vegna væri ekki útlit fyrir neinar breytingar á Stjórnarráðinu.

En ekki var reynt að ná neinni samstöðu við stjórnarandstöðuflokkana um þær breytingar sem við fjöllum um hér í dag. Þetta er alhliða tillaga frá formönnum tveggja stjórnmálaflokka, sem vissulega eru forustumenn í ríkisstjórn. Mér finnst því að þarna stangist á það sem kom fram hjá forsætisráðherra fyrir kosningar og svo það sem verður raunin eftir kosningar.

Í framhaldi af því sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra, þegar hann sagði að ekki hefði verið talin ástæða til að halda áfram samrekstri iðnaðarráðuneytis og viðskiptaráðuneytis, vil ég segja að það er náttúrlega ekki þannig. Hæstv. forsætisráðherra sleppur nú ekki svona billega frá þessu. Þetta var náttúrlega gert til þess eins að geta skaffað samfylkingarmönnum stóla í ríkisstjórninni, þeim var ekki treyst til að taka að sér ráðuneyti sem fjalla um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Ég hef vissulega ákveðinn skilning á því að forsætisráðherra skuli hafa vantreyst þeim í þeim efnum.

En þetta er nú ástæðan. Það þurfti fleiri stóla fyrir samfylkingarráðherra. Þeir taka þarna við örsmáum ráðuneytum. Ég þekki vel til þarna og veit að það var mjög hagkvæmt og skynsamlegt að reka þessi ráðuneyti saman en nú virðist annað upp á teningnum. En ég veit að forsætisráðherra hefur ekki góða samvisku út af þessari breytingu. Það er ég sannfærð um.