135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[13:03]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í svo stuttum andsvörum kemur ekki mikið fram. Ég sagði áðan og stend við: Hvers vegna fara menn með alla vísindamenn landbúnaðarins í burtu? Vísindamenn landbúnaðarins eru í landgræðslunni, þeir eru í skógræktinni og starfa á Mógilsá, þeir eru í Landbúnaðarháskólanum þannig að ég stend enn við það að þeir vísindamenn sem heyra undir landbúnaðinn áfram og landbúnaðarráðherra eða bændasamtökin eru auðvitað þeir sem eru í Búnaðarsambandinu og eru að fara með það mikilvæga fólk í burtu. Það getur enginn þrætt fyrir það. Ég tel það bara ekki skynsamlegt. Ég tel það ekki stjórnsýslulega rétt, hæstv. landbúnaðarráðherra.

Hvað Landgræðsluna varðar hefur hún auðvitað sinnt verkefnunum Bændur græða landið. En hún hefur verið stórbrotin framkvæmdastofnun, hlaðin þekkingu og á mjög merkilega sögu. Ég hygg að það geti orðið deilur um það að finna út núna hvað þetta eru stórar upphæðir. Ég hygg að menn vilji fara með peningana inn í umhverfisráðuneytið og láta bændurna græða landið. Það getur orðið töluvert deiluefni hjá hæstv. ráðherra. Stóra málið er það sem ég fór yfir í ræðu minni. Af því að ég hef haft álit á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem stjórnmálamanni ætla ég ekki að fara í háværar deilur um málið. Ég hef sett rök mín fram, þau eru skýr og ég hygg að það sé tekið undir það. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því að óvissa veldur því í þessu ólguþjóðfélagi að fólkið sem veit ekki vissu sína fer, og sannleikurinn er sá (Forseti hringir.) að það eina sem við eigum í stjórnsýslunni sem skilar okkur árangri er fólkið sjálft, og fólkið megum við ekki missa.