135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

16. mál
[21:34]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held satt að segja að ég og hv. þm. Ásta Möller séum að nálgast hvort annað í þessu máli. Hún ber það nú algjörlega af sér að hafa einhverjar trúarsetningar uppi um að einkareksturinn eigi alltaf við með sama hætti og ég andmælti því kröftuglega hér áðan að ég hefði einhverjar trúarsetningar um að opinberi reksturinn ætti alltaf við, þannig að kannski erum við eitthvað að nálgast hvort annað í þessu.

Ég vil þó segja, af því að hv. þingmaður talar um blómlegt atvinnulíf og þess háttar: Ég lít svo á að ýmislegt í starfsemi hins opinbera, líka samfélagsþjónustunni, sé blómlegt atvinnulíf. Það er að sjálfsögðu blómlegt atvinnulíf að annast rekstur Landspítalans. Ég kalla það atvinnulíf að sjálfsögðu. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn segir að samkeppnislög taki á því þegar einkaaðilar eru komnir inn á svið sem opinberir aðilar hafa verið á og eru á, að þá beri að aðskilja reksturinn. Ef einhverjir einkaaðilar, læknar t.d., tækju sig saman og stofnuðu sjúkrahús mætti segja: Nú er hið opinbera óvart komið í samkeppni við einkaaðila og það verður bara að taka sjúkrahús ríkisins og ýta þeim burt af því að einhverjir læknar og hjúkrunarfræðingar ætla að reka sjúkrahús.

Að sama skapi mætti segja um skóla, grunnskólana t.d.: Af því að það eru komnir einhverjir einkaskólar þá verða opinberu skólarnir að fara út af markaðnum. Það er meira að segja séð fyrir því í grunnskólalögunum að ef einkaaðilar stofna grunnskóla beri hinum opinbera aðila að láta þá hafa jafnmikið fé og sett er í hinn opinbera skóla, og þá getur maður velt því fyrir sér hvað er svona „einka“ við það þegar opinberir aðilar eiga síðan að borga allan kostnaðinn.